Skyndihjálpin hans Kalla kemur að góðum notum

Erlu Hlín Hjálmarsdóttur

17. mar. 2010

Erla Hlín skrifar á bloggsíðu sinni um það hvernig skyndihjálparnámskeið Rauða krossins hjálpaði henni í atviki sem upp kom við sundlaug í Namibíu. Hún þakkar það góðri kennslu Karls Lúðvíkssonar leiðbeinanda í skyndihjálp að hún hafði engu gleymt.

Gærdagurinn var merkisdagur. Ég er búin að vinna mikið við tölvuna undanfarið og hafði fengið í illilega bakið. Ég var því að brölta í býtið að bryðja viðeigandi lyf. Ég ákvað samt að skella mér út að hlaupa og var komin á götuna klukkan 6, í myrkri, með góðum hlaupafélögum. Við hlupum 20 kílómetra, og þó nokkuð á fjallastígum. Við nutum sólarupprásarinnar við Avis stíflu, þar sem náttúran skartaði sínu fegursta. Bakið var miklu betra eftir fyrsta klukkutímann, svo að ég var hamingjusöm að hafa drifið mig.

Síðdegis fórum við svo í kveðjupartý fyrir vini okkar sem eru að flytja til Bandaríkjanna eftir áratuga veru í Afríku. Þar var mannmargt, og aragrúi krakka út um allt. Við Davíð skiptumst á að fylgjast með drengjunum okkar þegar þeir voru í lauginni, sem var vinsælasta leiksvæðið fyrir börnin. Davíð var úti á plani og afrekaði það að kenna Óskari að hjóla án hjálpardekkja, á meðan ég var inni í húsaporti að horfa á Stefán í lauginni. Þá hrópaði einn litlu strákanna á hjálp, en tvær unglingsstelpur lágu á botninum á lauginni þar sem hún var dýpst. Gestgjafinn er fyrrverandi landgönguliði og við hlupum bæði á eiturhraða að lauginni. Hann stakk sér niður eftir annarri stúlkunni, sem lá lífvana á botninum. Ég tók á móti henni uppi á bakkanum.

Ekki var nú staðan góð. Hún var hætt að anda, enginn hjartsláttur og lungun full af vatni og ælu. Augun galopin störðu stjörf út í loftið. Við hófum strax lífgunartilraunir. Ég hef stundum spekúlerað hvernig á að blása lofti í mann sem er með lungun full af vökva. Núna veit ég allt um það. Ég blés í hana, og eftir góða stund kom annar sem var þjálfaður sjúkraflutningamaður, og sá um hjartahnoð á meðan ég blés. Að lokum fór hjartsláttur af stað aftur og hún fór að anda veikum mætti. Kaldur líkaminn varð fljótlega heitur, en hún hvorki hreyfði sig, né sýndi viðbrögð við áreiti. Svo komu sjúkrabílar úr öllum áttum, en það varð uppi svo mikill fótur og fit að fólk hringdi á þrjú neyðarfyrirtæki.

Ekki fannst mér nú sjúkraflutningamennirnir hafa hraðar hendur. Hún var mjög lág í súrefni og með veikan, hraðan púls. Þeir gáfu henni loks súrefni og svo var hún flutt á spítala. Ég myndi nú seint kallast svartsýn mannvera, en ég var nú ekki mjög bjartsýn fyrir hönd blessaðrar stúlkunnar.

Á meðan þessu öllu stóð var annað par að sinna hinni stúlkunni sem tók fljótlega við sér og var farin að hósta og hreyfa sig sjálf. Sú verður útskrifuð af spítala á morgun en stúlkan sem við vorum að sinna er enn á gjörgæsludeild, enda var enn mikill vökvi í lungunum. Það er því ekki enn útséð með hvernig fer með hana. Hún hafði dottið í laugina og vinkonan farið á eftir til að bjarga henni. Báðar ósyndar. Þær eru báðar namibískar, en krakkar hér kunna almennt ekki að synda. Enda drukkna ófá börn í flóðum, og jafnvel í grunnum pollum.

Margir gestirnir voru hálf volandi af sjokki. Slysin eru fljót að gerast, foreldrarnir eru náttúrulega að fylgjast með börnunum, en maður er ekkert að fylgjast með svona stálpuðum krökkum, ég hafði sjálf bara augun á Stefáni.

Það er gott að hafa tekið skyndihjálparnámskeið hér til forna (lesist í níunda bekk). Kalli leikfimiskennari (Karl Lúðvíksson kennari á Sauðárkróki og leiðbeinandi í skyndihjálp) yrði væntanlega kátur að vita að eitthvað af kennslunni hefur síast svona vel inn. Svo skrýtið sem það er, þá man ég hreinlega allt sem var kennt þá.