Hvernig á GOTT stjórnarstarf að vera?

10. maí 2011

Að starfa í stjórn var yfirskrift deildanámskeiðs sem haldið var fyrir stjórnir í deildum Rauða krossins á Norðurlandi undir leiðsögn Ómars H. Kristmundssonar fyrrverandi formanns Rauða kross Íslands. Fjallaði Ómar um mismunandi hlutverk stjórnamanna og hvernig auka má virkni og skerpa á hlutverkum. Fór hann yfir helstu hlutverk stjórna í almennum félögum; stefnu-, eftirlits-, fjármögnunar- , mannauðs-, málsvara- og ráðningahlutverk og vægi þeirra sem er mismikið og háð tegund stjórna.

Þátttakendur tóku þátt í hópavinnu þar sem farið var yfir hversu veigamikil hlutverkin eru mæld í fundatíma / fjölda funda og hversu veigamikil hlutverkin ættu að vera. Skoðað var hvort hlutverki hefði verið sinnt, hvort það væri veigalítið eða umfangsmikið.

Síðan var fjallað um samsetningu stjórnar, verkaskiptingu og fundi, þar sem hann lagði áherslu á að liðurinn önnur mál væri virtur, fundaframkvæmd, starfsdaga og fjárhagslega ábyrgð sem væri fyrst og fremst siðferðileg nema annað væri tekið fram.

Tuttugu og fimm stjórnarmenn tóku þátt í námskeiðinu. Góðar umræður sköpuðust og almenn ánægja með námskeiðið.