Frábær fyrirlestur

13. maí 2011

Í vikunni hélt Lára Ómarsdóttir, fréttamaður, erindi í Lundarskóla á Akureyri. Erindið bar yfirskriftina “ Hagsýni og hamingja”. Lára talaði út frá eigin upplifun, en rétt upp úr aldamótum gekk hún og fjölskylda hennar í gegnum miklar þrengingar í kjölfar þess að eignast barn sem þurfti að dvelja langdvölum á sjúkrahúsi á sama tíma  og eiginmaðurinn missti vinnuna. Miðlaði hún af reynslu sinni og því hvernig fjölskyldan í sameiningu tókst á við að gjörbreyta lifnaðarháttum og  hvernig þau unnu sig í gegnum þetta bæði tilfinningarlega og fjárhagslega.
Erindið var sett fram á líflegan og skemmtilegan hátt og greinilegt að fjölskyldan stendur sterkari eftir. Undirtektir áheyrenda voru góðar og fékk hún margar spurningar í lokin.

Að erindinu stóðu Akureyrardeild Rauða krossins í samstarfi við Vinnumálastofnun.