Rauða kross fræðsla í Vinnuskóla Húsavíkur

27. jún. 2011

Nemendur Vinnuskóla Húsavíkur fengu heimsókn frá Rauða krossinum. Settur var upp fræðsludagur með sérhönnuðu námskeiði um fordóma sem nefnist Viðhorf og virðing en fyrst fengu krakkarnir fræðslu um starf Rauða krossins og hvernig og hvers vegna hann var stofnaður.

Eftir fræðslu um Rauða krossinn var farið í að ræða um fordóma út frá spurningunni: „hvaða afstöðu tökum við og af hverju?".  Rætt var um mikilvægi þess að taka afstöðu að vel yfirlögðu ráði því ekki er ævinlega allt sem sýnist. Þetta var gert með því að nemendur þurftu að leysa ýmis verkefni og koma sér saman um úrlausnir þannig að allir væru sáttir. Í leiknum já, nei, ég veit ekki er slegið fram ákveðnum fullyrðingum sem þátttakendur þurfa að taka afstöðu til.

Krakkarnir í vinnuskólanum skáru sig ekki frá jafnöldrum sínum á fyrri námskeiðum þegar fram var borin fullyrðingin „Karlar eru betri bílstjórar en konur.“ Flestum drengjum þótti þetta liggja í augum uppi. Karlmenn eru sko betri bílstjórar! Krakkarnir voru áhugasöm og virk í hópavinnunni og þeim leikjum sem farið var í.

Leiðbeinendur voru Hafsteinn Jakobsson framkvæmdastjóri Akureyrardeildar og Guðný Björnsdóttir svæðisfulltrúi.