Gestir Lautar hafa í nógu að snúast

28. jún. 2011

Fuglaskoðun og grillveisla er meðal þess sem gestir Lautar, athvarfs Rauða krossins fyrir fólk með geðraskanir á Akureyri, hafa gert sér til dægrastyttingar nú á vormánuðum.

Sjálfboðaliðar sem sjá um laugardagsopnanir í athvarfinu yfir vetrartímann slógu upp grillveislu þegar þeir fóru í sumarfrí og gerðu sér glaðan dag með gestum athvarfsins. Að öllu óbreyttu verður þráðurinn tekinn upp í september og athvarfið opið alla laugardaga.

Fuglaskoðunarferðir hafa mælst vel fyrir hjá Lautarfólki. Dag einn var haldið að Djáknatjörn sem er við Krossanes og fylgst með úr fuglaskoðunarhúsi sem þar hefur verið komið fyrir. Það sem helst bar fyrir augu voru ýmsar tegundir máfa, mófugla og anda auk þess sem Heiðagæs og Hrafn sýndu sig á svæðinu. Það er áhugavert hve margar tegundir fugla lifa í sambýli og gaman þegar nýjar tegundir, eða jafnvel flækingar, bætast í hópinn. Ekki voru þó neinar mörgæsir á ferð þó hitastig og veðurlag norðanlands sé nær því að vera eitthvað sem þekkist á þeirra heimaslóðum.

Hópurinn naut leiðsagnar Harðar Ólafssonar sem er um margt fróður og sérlegur áhugamaður um fugla.