Siglufjarðardeild - starfið á árinu

1. mar. 2012

Notkun á húsnæði
Húsið var lánað v/fermingarveislu, árgangsmóts, Pæjumóts og Þjóðalagahátíðar. AA  Alanon samtökin fá húsið lánað 1 x í viku fyrir fundi. Samstarfskonur frá Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar sem koma saman og prjóna, fá afnot af húsnæðinu. Þær færðu deildinni peningagjöf á síðasta aðalfundi og þökkuðu kærlega fyrir sig.

Fundir og námskeið
Ólafur fór á formannafund í maí 2011. Steinar og Ólafur sátu aðalfund Rauða kross Íslands sem haldinn var í maí. Margrét var kosinn formaður svæðisráðs Rauða krossins  á Norðurlandi  síðasta  haust. Margrét var einnig kjörinn fulltrúi í skyndihjálparhópi sem settur var af stað á Norðurlandi. Fjöldahjálparnámskeið var haldið á Siglufirði í janúar, frá stjórninni tóku  Mundý, Margrét og Steinar þátt.

Fjöldahjálparnámskeið á Siglufirði
Fjöldahjálparnámskeið var haldið á Siglufirði laugardaginn 15. Janúar. Námskeiðið var haldið í Grunnskólanum við Norðurgötu sem jafnframt er Fjöldahjálparstöð nr. 1 en til vara er skólahúsið við Hlíðarveg. Námskeiðið var vel sótt af heimamönnum, 11 manns mættu, tveir komu frá deildinni á Ólafsfirði og einn frá Skagafjarðardeild. Fyrirlesarar voru Jón Brynjar Birgisson og Guðný Björnsdóttir starfsmenn Rauða krossins. Nemendur á námskeiðinu þurftu m.a. að framkvæma verklegar æfingar t.d. svokallaða skrifborðsæfingu um fjöldahjálp, skipuleggja fjöldahjálparstöð svo eitthvað sé nefnt

Börn og umhverfi
Barnfóstrunámskeiðin Börn og umhverfi hafa verið haldin fyrir nemendur í 6. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar. Í ár var í fyrsta skipti höfð samvinna við Ólafsfjarðardeildina. Á námskeiðinu er farið í ýmsa þætti er varða umgengni og framkomu við börn, aga, umönnun og hollar lífsvenjur, leiki og leikföng. Einnig er lögð áhersla á slysavarnir og algengar slysahættur í umhverfinu. Leikskólakennari og hjúkrunarfræðingur sjá um fræðsluna. Námskeiðið tókst mjög vel, fjöldi nemenda var 18.

Skyndihjálparnámskeið og verkefnið Hugsað um barn
Nemendur úr árgangi 1995, fengu bæði skyndihjálparkennslu og verkefnið Hugsað um barn. Deildin tók þátt í svokölluðu „dúkkuverkefni” sem er forvarnarstarf fyrir unglinga í 9. og 10. bekk grunnskólans. Nemendur fá tölvusetta dúkku til umönnunar frá föstudegi til mánudags. Þar átta þau sig á þeirri ábyrgð sem fylgir því að eignast og sjá um ungabarn. Verkefnið er fræðsla um kynlíf og barneignir og forvörn gegn kynsjúkdómum og fóstureyðingum.

10. bekk grunnskólans er boðið upp á fullt námsskeið í almennri skyndihjálp að vori.

Heimsóknavinanámskeið var haldið. Mættar voru:  Svanfríður Pétursdóttir, Gíslína Anna Salmannsdóttir, Sólveig Rafnsdóttir og Sigurbjörg Bjarnadóttir. Leiðbeinandi var Guðný Björnsdóttir .

Fataverkefni
Deildin tekur á móti fötum í húsnæði deildarinnar við Aðalgötu. Þar hafa bæjarbúar lagt fram föt sem koma ekki lengur að notum. Fötin eru send til Reykjavíkur til flokkunar.

Neyðarvarnir
Slys varð í nóvember þar sem áfallateymi Rauða krossins á Akureyri kom okkur til aðstoðar. Þarna fundum við vel hve mikilvægt það er að eiga góða að. Opið hús var dagana 16., 19. og 20. nóvember  vegna slyssins. Áfallateymi Norðurlands hélt  um stjórnina. Margir nýttu sér þessa þjónustu. Mjög gott og yndislegt fólk sem studdi okkur við þetta mikla áfall. Gott að vita og finna til þess að hægt er að fá svona hjálp.

Heimsóknavinir
Opið hús var í október þar sem heimsóknavinir kynntu „hvað fælist í heimsóknavinum". Haldnir voru nokkrir fundir með heimsóknavinum á árinu. Spjall og kaffi.

Rauðakrossvikan
Rauðakrossvikan var haldin dagana 17. - 21. október og bar yfirskriftina sjálfboðaliðastarf. Deildin var með opið hús í húsnæði deildarinnar að Aðalgötu 32 þriðjudaginn 18. október frá kl. 17.00 - 20.00. Þar fór fram kynning á starfi deildarinnar og heimsóknavinahópurinn kynnti sitt starf. Gefinn var út bæklingur um starf deildarinnar og honum dreift á vinnustaði.
Farið var í heimsókn á leikskólann, börnunum gefnir reiðhjólahjálmar og starfsemi Rauða krossins  kynnt.

Afmælishóf
Deildin varð 70 ára á árinu. Því var boðið upp á afmæliskaffi. Fengum gjöf og góð orð frá sveitarfélaginu og eins kom formaður Ólafsfjarðardeildar Helga Stefánsdóttir og færði okkur blóm. Nokkuð góð mæting var, en við náðum ekki í marga sjálfboðaliða en þó eitthvað.