Heimsókn sjálfboðaliða frá Mósambík til deilda á Norðurlandi

19. jún. 2006


Rafael og María lentu heilu og höldnu á Akureyrarflugvelli um kl. 9 á fimmtudagskvöldið eftir langt og strangt ferðalag. Ekki gekk eins vel með farangurinn því hann skilaði sér ekki. Einhvers staðar skildu leiðir en  flugleiðin var frá Mapútó - Jóhannesarborg - Frankfurt-London - Kaupmannahöfn - Akureyri, þannig að það er ljóst að möguleikarnir eru nokkrir. Málið var sett í vinnslu og þegar þetta er skrifað, 17. júní, er önnur taskan komin í leitirnar.

Þau voru að vonum þreytt þegar þau komu á áfangastað, en eftir góðan nætursvefn mættu þau galvösk á föstudagsmorguninn á skrifstofu Akureyrardeildar. Þau voru hins vegar ekki með það á hreinu hvort kominn væri nýr dagur því að það hafði aldrei komið nein nótt.

Eftir að hafa kynnt sér aðstöðu Akureyrardeildar var hádegisverður snæddur í Laut og þar á eftir var farið í Kjarnaskóg þar sem þau gróðursettu tvær plöntur sem að sjálfsögðu voru skírðar í höfuðið á þeim. Því næst var ekið upp í Hlíðarfjall til að sýna þeim snjóinn. Eftir að hafa farið og keypt sokka til skiptanna var haldið á Slökkvistöð Akureyrar þar sem þau kynntu sér starfsemina og skoðuðu sjúkrabílana, en þau eru mjög áhugasöm um skyndihjálp og neyðarvarnir.

Um kvöldið var svo sameiginleg grillveisla deilda á austursvæðinu og mættu yfir 30 manns. Nú í morgun lá leiðin til Húsavíkur þar sem farið var í hádegismat heim til Magnúsar gjaldkera, en  hann grillaði lax ofan í mannskapinn. Á dagskrá var að fara í skrúðgöngu, fara á hestbak og í hvalaskoðun í kvöld ef veður leyfir.