Fatasöfnun - kjóllinn sem komst ekki á ball

21. ágú. 2012

Með tveimur flíkum sem komu í fatasöfnun Rauða krossins fyrir skemmstu fylgdu skemmtileg skilaboð. Annars vegar var hálfsaumaður kjóll  sem flutti viðtakanda þá sorglegu sögu að hann hefði aldrei verið fullkláraður þar sem eigandinn var kominn á kaf í búskaparbasl og af þeim sökum hafi hann aldrei komist með henni á böllin.

Hinni flíkinni fylgdu þau skilaboð að eigandanum hafi ekki líkað hún eftir að hún var víkkuð út til að falla betur að hans vaxtarlagi.

Ef einhver vill fullkomna Öskubuskuævintýri kjólsins þá bíður hann tilsniðinn í fataverslun Rauða krossins á Akureyri. Sömuleiðis  bíður þar  hin sérsniðna flík sem lítur út fyrir að vera hlý og góð og gæti vel gagnast einhverjum á köldum vetrardegi.

Í Fataflokkuninni  er annars tekið á móti fatnaði, skóm og ýmiskonar efnisbútum og líni og allt gagnast það Rauða krossinum með einum eða öðrum hætti.   
 

[Mynd 1]
Þessi kjóll var miður sín að fá ekki að fara á ball
[Mynd 2]
Eigandanum líkaði ekki breytingarnar sem gerðar voru á flíkinni.