Hélt höfði ökumanns upp úr ánni

13. feb. 2013

Kári Kárason og sonur hans Pétur Arnar fengu viðurkenningu hjá Rauða krossinum í Austur-Húnavatnssýslu fyrir einstakt björgunarafrek í mars í fyrra. Þeir urðu vitni að því þegar bíll fór út af veginum við Laxá á Ásum, fór yfir brúarvegrið og lenti á hvolfi ofan í ánni.

Kári sagði Pétri Arnari að hringja strax í 112 og kalla á sjúkrabíl og reyna að stoppa aðra sem ættu þar leið um.  Kári hljóp sjálfur að slysstað og óð upp að mitti krapalagða ána til að komast að bílnum sem maraði í kafi.  Kári náði að opna hurðina farþegamegin til að komast að bílstjóranum sem var einn í bílnum.  Maðurinn var með höfuðið í kafi, og náði ekki andanum.

Kári reyndi að losa bílbeltið til að ná manninum út, en tókst ekki. Hann brá því á það ráð að halda höfði mannsins upp úr vatninu svo hann gæti andað. Það tók sjúkraflutningamenn frá Akureyri og Blönduósi um 8 mínútur að koma á vettvang. Báðir voru mjög kaldir eftir volkið í ánni. Líkamshiti ökumannsins var kominn niður í um 34°C þegar hann kom á sjúkrahúsið á Blönduósi þar sem hlúð var að honum, en hann reyndist lemstraður en óbrotinn .

Mikil mildi þykir að Kári og sonur hans urðu vitni að slysinu því bílinn sást ekki ofan af veginum og því óvíst hversu langur tími hefði getað liðið þar til hans hafði orðið vart. Þá þykir Kári hafa unnið þrekvirki við erfiðar aðstæður.