Rauði krossinn í Þingeyjarsýslu sameinast

3. maí 2013

Aðalfundur hinnar nýju Rauða kross deildar í Þingeyjarsýslu var haldinn í fögru umhverfi Gljúfrastofu í Ásbyrgi, fimmtudaginn 2. Maí.  Þar sameinuðust Húsavíkurdeild, Öxarfjarðardeild og Þórshafnardeild í eina deild sem heitir Rauði krossinn í Þingeyjarsýslu og nær yfir umdæmi sýslumanns Þingeyinga.

Um 20 manns sátu stofnfundinn. Sérstakir gestir voru Anna Stefánsdóttir formaður Rauða krossins á Íslandi, Guðný Bergvinsdóttir í varastjórn Rauða krossins og Guðný Björnsdóttir starfsmaður Rauða krossins.

Mjög hefur þrengt að fjárhag Rauða krossins á Íslandi síðustu árin með minni tekjum af spilakössum.  Nú stendur yfir endurskipulagning alls starfs Rauða krossins á Íslandi með það fyrir augum að laga það að nýjum aðstæðum. Stjórnir félaganna þriggja á svæðinu vildu því ganga á undan og hafa sjálfar  frumkvæði að æskilegum breytingum sem einfalda stjórnkerfið og samrýmast m.a. betur nýrri neyðarvarnaráætlun almannavarna sem lítur forystu sýslumanns Þingeyinga en Rauði krossinn á fulltrúa í Aðgerðarstjórn  á svæðinu ef til hættuástands kemur.

Á stofnfundinum var nýju deildinni sett starfsfyrirkomulag sem miðar að því að svæðin sem tilheyrðu gömlu deildunum  þrem fái fulltrúa í stjórn og starfið hafi  þannig áfram svipaða fótfestu á öllu svæðinu. Í stjórn eru því tveir fulltrúar frá Húsavík, tveir úr sveitum sunnan Húsavíkur, einn úr Öxarfirði, einn frá Þórshöfn og einn frá Raufarhöfn. Varamenn skiptast eftir virkni svæða og framboði hverju sinni. Stjórnarmenn eru tengiliðir inn í starfið á hverjum stað fyrir sig og bera ábyrgð á því. Þeim ber að upplýsa aðra stjórnarmenn og stýra starfinu á viðkomandi stað og funda með sjálfboðaliðum eftir þörfum.

Eftirtaldir voru kosnir í fyrstu stjórn Rauða krossins í Þingeyjarsýslu: Halldór Valdimarsson Húsavík formaður. Þórhildur Sigurðardóttir Húsavík, Ólöf Þuríður Gunnarsdóttir Mývatnssveit, Þórunn Lilja Helgadóttir Raufarhöfn, Guðrún Stefánsdóttir Þórshöfn, Unnsteinn Ingason Þingeyjarsveit og Thomas Helmigt Öxarfirði. Í varastjórn eru: Þóra Fríður Björnsdóttir Þingeyjarsveit, Arna Þórarinsdóttir Húsavík, Karin Charlotta Victoria Englund Öxarfirði og Sólveig Sveinbjörnsdóttir Þórshöfn.

Sex manna neyðarnefnd er starfandi undir stjórn Ingólfs Freyssonar Húsavík og Magnúsar Þorvaldsson Húsavík. Hún mun samræma og endurskipuleggja neyðarvarnaráætlanir á svæðinu.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins gegna ýmsu sem þeir kjósa að vinna að og sumir eru hópstjórar. Helstu verkefni okkar eru neyðarvarnir, skyndihjálparfræðsla, fataverkefni sem aflar tekna til mannúðarstarfa í héraði, heimsóknavinir sem heimsækja þá sem óska eftir félagsskap.

Húsavíkurdeild er fjárhagslegur bakhjarl Setursins á Húsavík og hefur stutt starfið þar. Eins má nefna Velferðarsjóð Þingeyinga sem notið hefur stuðnings, svo fátt eitt sé nefnt. Sjúkrabílaþjónusta er rekin á landsvísu í samstarfi við heilbrigðisyfirvöld.

Rauði krossinn í Þingeyjarsýslu hefur aðsetur í Nausti á Húsavík í húseign sem félagið á hluta í og rekur í félagi við Björgunarsveitina Garðar og Slysavarnardeild kvenna á Húsavík.

Nýir sjálfboðaliðar eru velkomnir til starfa í góðum félagsskap og geta haft samband við Þórhildi Sigurðardóttur Strandbergi Húsavík í síma 464 2147 eða netfang [email protected] óski þeir eftir að vinna fyrir deildina. Allir sjálfboðaliðar gera samning um vinnubrögð sem samræmast reglum Rauða krossins á Íslandi.

Rauði krossinn hefur mikilvægu hlutverki að gegna í líknar- og almannavarnarstarfi. Margir hafa frá upphafi unnið vel í deildunum þrem sem lagðar voru niður í Gljúfrastofu á dögunum. Deildirnar eiga merka sögu og er félögum sem unnu fyrir þær þakkað óeigingjarnt hugsjóna- og mannúðarstarf. Sjálfboðaliðar þeirra lögðu brautina fyrir okkur sem áfram vinna að þessum mikilvægu samfélagsmálum í héraði.