Taktu til með Rauða krossinum og gerðu gagn með gömlum fötum

23. maí 2013

Komdu með gömlu fötin þín í fatasöfnun Rauða krossins nú um helgina. Rauði krossinn og Eimskip standa fyrir árlegu fatasöfnunarátaki þann 25.-26. maí. Til að létta undir með fólki við vortiltekt verður gámum komið fyrir við allar sundlaugar ÍTR í Reykjavík og við sundstaði í Kópavogi, Hafnarfirði, Mosfellsbæ, Garðabæ og Álftanesi. Það er því kjörið að skella sér í sund í sömu ferðinni.

Á landsbyggðinni er tekið á móti fötum á móttökustöðvum Eimskips Flytjanda og í merktum fatagámum Rauða krossins um allt land.

Rauði krossinn hefur sent sérmerkta fatsöfnunarpoka á öll heimili á landinu til að minna á fatasöfnunarátakið. Pósturinn styður verkefnið með því að dreifa pokunum endurgjaldslaust.

Ekki hika við að setja skó, handklæði, rúmföt, gluggatjöld, og jafnvel stöku sokkana í pokana því mikil verðmæti eru fólgin í allri vefnaðarvöru. Allur fatnaður, hvort sem hann er slitinn eða heill, nýtist Rauða krossinum.

Fatasöfnunin er orðin eitt af mikilvægustu fjáröflunarverkefnum Rauða krossins og rennur allur ágóði til hjálparstarfs. Árlega eru um þúsund tonn af fötum og klæði urðuð af óþörfu hérlendis. Öllu þessu væri hægt að koma í endursölu og -vinnslu og skapa um leið tekjur fyrir hjálparstarf  Rauða krossins.

Alls koma um 450 sjálfboðaliðar að fataverkefni Rauða krossins við söfnun, flokkun, sölu, og framleiðslu barnapakka til úthlutunar. Fatnaði er úthlutað til berskjaldaðra um allt land, hann er til sölu í Rauðakrossbúðunum, og þrisvar á ári er gámur sendur til fátækra barnafjölskyldna í Hvíta-Rússlandi.

Þetta er í fjórða sinn sem Rauða krossins og Eimskip ráðast í fatasöfnunarátak að vorlagi með því að setja upp sérstaka söfnunargáma við sundstaði á höfuðborgarsvæðinu. Eimskip er öflugasti stuðningsaðili fatasöfnunarverkefnis Rauða krossins og annast flutninga innanlands án endurgjalds og utan á afar hagstæðum kjörum.Taktu til með Rauða krossinum og gerðu gagn með gömlum fötum