Sameining Rauða krossins við Eyjafjörð

23. maí 2013

Sameining deilda Rauða krossins við Eyjafjörð var samþykkt á fjölmennum fundi í gærkvöldi.  Um er að ræða sameiningu deildanna á  Siglufirði, Ólafsfirði, Akureyri og í Dalvíkurbyggð.   Frá Rauða krossinum á Íslandi mætti Anna Stefánsdóttir, formaður og Guðný Bergvinsdóttir úr varastjórn landsfélagsins.

Nýja stjórnin verður níu manna og fjórir í varastjórn. Fundurinn samþykkti starfsreglur fyrir hina nýju deild og eru fulltrúar í stjórn frá öllum starfssvæðum hinna gömlu deilda.

Anna formaður tók til máls og lýsti ánægju sinni með það frumkvæði sem Þingeyingar og Eyfirðingar sýna með sameiningunni og óskaði þeim velfarnaðar í því frumkvöðlastarfi. Þakkaði hún fráfarandi stjórnarfólki samstarfið fram til þessa og bar fram þá ósk að starfskrafta þess nyti við áfram.

Formaður hinnar nýju stjórnar var kosinn Sigurður Ólafsson fyrrum formaður Akureyrardeildar. Aðrir í stjórn eru: Helga Ingibjörg Jóhannsdóttir, Helga Stefánsdóttir, Hörður Ólafsson, Kristín M. Karlsdóttir,  Eva Björg Guðmundsdóttir, Auður Eggertsdóttir og Elsa Guðmundsdóttir ásamt fjórum varamönnum

Að lokinni sameiningu kom stjórn hinnar nýstofnuðu deildar saman á sinn fyrsta fund og skipti með sér verkum.

Anna Stefánsdóttir formaður með fráfarandi formönnum deildanna við Eyjafjörð: Jón G. Knutsen Akureyrardeild, Helga Stefánsdóttir Ólafsfjarðardeild, Símon Páll Steinsson Dalvíkurdeild og Ólafur Sigurðsson Siglufjarðardeild.
Guðný Bergvinsdóttir afhendir Sigurði Ólafssyni formanni fundagerðarbók.