Opnun Rauða kross búðar á Akureyri

24. jan. 2014

Í dag var opnuð ný Rauða kross búð á Akureyri og var af því tilefni gestum og gangandi boðið að skoða verslunina og þiggja veitingar. 

Undanfarna mánuði hefur verið unnið að endurbótum á húsnæði búðarinnar og óhætt að segja að aðgengi að henni og þeim fatnaði sem þar er seldur sé með besta móti.

Sigurður Ólafsson, formaður Rauða krossins við Eyjafjörð, þakkaði af þessu tilefni öllum þeim sem unnið hafa að og stutt við endurbætur húsnæðisins. Hann þakkaði jafnframt almenningi fyrir þeirra stuðning sem fellst fyrst og fremst í þeim fatnaði sem Rauða krossinum er gefinn og í þeim viðskiptum sem almenningur á við Rauða kross búðirnar.

Fatasöfnun er stærsta umhverfisverkefni Rauða krossins, því ekki er einungis um að ræða frábæra endurvinnslu heldur leggur fólk félaginu lið með því að gefa fatnað og styrkir neyðaraðstoð bæði hér á landi og erlendis.

Rauða kross búðin á Akureyri er staðsett í húsnæði Rauða krossins við Viðjulund 2 og verður hún fyrst um sinn opinn mánudaga til föstudaga kl. 13 – 17.