90 ár frá stofnun Rauða krossins á Akureyri

29. jan. 2015


Í dag eru liðin 90 ár frá stofnfundi Akureyrardeildar Rauða krossins á Íslandi. Deildin hefur frá upphafi verið ein sú öflugasta á Íslandi en til marks um það höfðu 75 manns skráð sig í deildina áður en stofnfundurinn sjálfur fór fram! Á fundinum var fjölmenni en þar ræddi hinn nafntogaði læknir og frumkvöðull, Steingrímur Matthíasson, sonur þjóðskáldsins Matthíasar Jochumssonar, um skyndihjálp – sem var þá og er enn – einn af hornsteinum starfs Rauða krossins.

Í dag fagnar Eyjafjarðardeild Rauða krossins upp á afmælið, en deildin varð til við sameiningu Akureyrar-, Dalvíkur,-Siglufjarðar-og Ólafsfjarðardeildar árið 2013. Gestir og gangandi eru velkomnir í hús Rauða krossins á Akureyri í Viðjulundi 2 í dag milli klukkan 15 og 17. Veitingar verða að sjálfsögðu í boði og hver veit nema afmælissöngur verði sunginn.

Þá er einnig rétt að minnast á að verslun Rauða krossins á Akureyri er með afmælistilboð í dag... allar vörur á 90 krónur! Ein króna fyrir hvert ár.

Til hamingju Eyjarfjarðardeild Rauða krossins!