„Á flótta" gefur eina einingu í námi

9. okt. 2006

Fjölbrautarskóli Norðurlands vestra hefur tekið upp valáfangann Á flótta. Um er að ræða hlutverkaleik sem Rauði krossinn hefur hannað með það að markmiði að gefa þátttakendum innsýn í líf og kjör flóttafólks, að auka skilning ungmenna á stöðu flóttafólks og að virkja ungmenni í starfi Rauða krossins.

Þeir nemendur sem taka þátt í leiknum til enda þurfa að skila inn greinagerð um sína upplifun. Þá útskrifast þeir með eina einingu.

Á flótta er upprunalega danskur hlutverkaleikur sem gefur ungu fólki á aldrinum 13 til 18 ára tækifæri til að upplifa hvernig það er að vera flóttamaður í einn sólarhring. Í upphafi leiksins fá þátttakendur nýtt nafn, þjóðerni, vegabréf og jafnvel nýja fjölskyldu. Þar næst hefst örlagarík atburðarás þar sem þátttakendur neyðast til þess að flýja lengri eða styttri vegalengdir, kljást við skæruliða, hermenn, svartamarkaðsbraskara, fólkssmyglara og skriffinna, matarlausir, þreyttir og niðurlægðir.

Unglingar í hinum vestræna heimi eru gjarnan það verndaðir frá vandamálum heimsins að það er þeim oft ofviða að hafa samúð með hinum 20 milljónum manna sem eru á flótta í heiminum.  Hlutverkaleiknum er ætlað að opna augu þeirra. Þátttakendurnir ná að upplifa á þessum eina sólarhring angist, þreytu, hræðslu og annað sem flóttamenn þurfa jafnvel að búa við í mörg ár.

Áætlaður fjöldi í hverjum leik í hvert sinn er um 40 til 60 unglingar. Leiðbeinendur frá deildum Rauða krossins á Norðurlandi sjá um stjórn verkefnisins.