Fjallaferð með menningarlegu ívafi

28. ágú. 2006

Þann 17 ágúst fóru krakkar úr Tómstundahópi Skagafjarðardeildar Rauða krossins í fjallafeð með menningarlegu ívafi. Var förinni heitið yfir Kjöl, hin gullna hring, í Þórsmörk og endað á Menningarnótt Reykjavíkur.

Lagt var af stað frá Sauðárkróki og haldið yfir Kjöl. Stoppað var í Áfanga, Hveravöllum, Gullfossi og Geysi, staðirnir skoðaðir og nesti borðað eftir þörfum. Um kvöldið var svo komið við á Þingvöllum og grillað áður en haldið var í gististað í Reykjavík.

Daginn eftir var ferðinni heitið í Bása í Þórsmörk. Þar var stoppað fram eftir degi, farið í göngu- og fjallaferðir fyrir þá sem treystu sér til og endað í grilli.

Á laugardeginum var tekið þátt í dagskrá Menningarnætur, labbað um bæinn og fylgst með hinum ýmsu viðburðum sem borgin bauð upp á. Endapunkturinn var svo flugeldasýningin úti á ytri höfninni kl. 22:31.

Tómstundahópurinn var stofnaður haustið 2005 og er vettvangur fyrir fólk með fötlun til að fá þjálfun í að skipuleggja tómstundir sínar með aðstoð leiðbeinenda. Hópurinn kemur saman einu sinni í viku yfir vetrarmánuðina þar sem farið er yfir viðburði vikunnar og reynt að finna út hvað hentar hverjum og einum. Einnig skipuleggur hópurinn ferðalög, jólahlaðborð og fleira í þeim dúr. Fjallaferðin var hlutii af þessu starfi.

Vill hópurinn koma kæru þakklæti til allra þeirra sem aðstoðuðu í ferðinni auk þeirra styrktaraðila sem hjálpuðu við að gera ferðina að veruleika.