Sjálfboðaliðar frá Mósambík í vettvangsferð á Norðurlandi

23. jún. 2006

Rafael og María við Goðafoss.
Þann 15. júní fengu Rauða kross deildir á Norðurlandi heimsókn tveggja sjálfboðaliða frá Mósambík. Það eru þau Rafael Joao Muando og Maria Amaral Tinga. Þau hafa verið að kynna sér starf deildanna og Rauða kross Íslands.

Deildirnar hafa s.l. þrjú ár, eða frá 2004, verið í vinadeildasamstarfi við Rauða kross deildina í Mapúto í Mósambík. Á síðasta ári fóru þrír sjálfboðaliðar frá Norðurlandi í heimsókn til  vinadeildarinnar og var þar fastmælum bundið að tveir sjálfboðaliðar myndu endurgjalda heimsóknina á þessu ári.

Svæðisráð og vinnuhópur um vinadeildarsamstarf lagði mikinn metnað í að gera heimsóknina sem besta úr garði þó ljóst væri að ekki var möguleiki á að heimsækja allar deildir á svo skömmum tíma. Þær deildir sem þau hittu kynntu verkefni sín og buðu upp á skoðunarferðir um svæðin.

Rafael og María hófu heimsóknina á Akureyri og á föstudeginum kynntu þau sér aðstöðu deildarinnar og borðuðu hádegisverð í Laut, athvarfi fyrir geðfatlaða. Síðan var varið í Kjarnaskóg og þau gróðursettu plöntur sem að sjálfsögðu voru skírðar í höfuðið á þeim. Þau sáu snjóinn í Hlíðarfjalli og fóru á Slökkvistöð Akureyrar þar sem þau kynntu sér starfsemina og skoðuðu sjúkrabílana, en þau eru mjög áhugasöm um skyndihjálp og neyðarvarnir. Um kvöldið var svo sameiginleg grillveisla deilda á austursvæðinu og mættu yfir 30 manns.

Þann 17. júní var farið til Húsavíkur en Magnús gjaldkeri deildarinnar bauð upp á grillaðan lax í hádeginu. Síðan tóku þau þátt í þjóðhátíðarhöldum; skrúðgöngunni, fóru á hestbak og hvalaskoðun um kvöldið.

Þann 18. júní lá leiðin austur í Kelduhverfi þar sem þau skoðuðu fjárhús, svæðisskrifstofu Rauða krossins, Ásbyrgi og Dettifoss. Síðan lá leiðin að Mývatni, Kröfluvirkjun, Námaskarði, Dimmuborgum og í Jarðböðin. Síðan lá leiðin til Akureyrar með viðkomu við Goðafoss.

Mánudaginn 19. júní var farið til Skagafjarðar um Dalvík, Ólafsfjörð og yfir Lágheiði. Komið var að Hólum um hádegi þar sem þau Gestur og Sólrún, stjórnarfólk í Skagafjarðardeild tóku á móti gestum. Þau fengu leiðsögn um staðinn og borðuðu Hólableikju.

Síðan lá leiðin til Sauðaárkróks þar sem að húsnæði deildarinnar var skoðað, en þar stóð einmitt yfir námskeið í sálrænum stuðningi fyrir unglingana í vinnuskólanum. Þau kynntu sér heimsóknarþjónustuverkefni deildarinnar og fóru í heimsókn til heimsóknarvinar. Því næst skoðuðu þau Glaumbæ og endað var á Löngumýri í sameiginlegum kvöldverði deilda á vestursvæðinu. Þar sýndu Rafael og María myndband um verkefni deildarinnar í Mapúto.

Á þriðjudag tóku sjálfboðaliðar deildanna í A-Húnavatnssýslu og á Hvammstanga á móti þeim og kynntu starfsemi deildanna. Þau skoðuðu Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi og fóru í Blönduvirkjun. Rafael hljóp upp stigana í jarðgöngunum sem eru 236 metrar lóðrétt upp og hlaut að launum viðurkenningarskjal.

Síðustu tvo daga heimsóknarinnar voru þau Rafael og María í Reykjavík þar sem þau kynna sér starf Rauða kross Íslands en þau héldu heim á leið á í dag.