Stuðningur kemur víða að

12. jún. 2006

Guðný Björnsdóttir svæðisfulltrúi Rauða kross Íslands tekur við peningagjöfinni úr hendi Ástu Gísladóttur nemanda í 10. bekk Hafralækjarskóla.
Á vordögum kom stúlknakór frá Englandi í heimsókn í Hafralækjarskóla í Aðaldal. Kórinn hélt tvenna tónleika á meðan á heimsókninni stóð.

Nemendur skólans höfðu ákveðið að innkoma vegna tónleikanna rynni til starfs Rauða kross deilda á Norðurlandi í Mósambík. Svæðisfulltrúi Rauða krossins mætti við skólaslit skólans og tók við 49 þúsund krónum.

Peningagjöfin kemur að góðum notum og mun vera nýtt til að mála barnaheimilið Boa Esperanca sem rekið er fyrir munaðarlaus börn í Mapútó.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem skólinn styrkir starf deildanna, en áður hafa borist peningagjafir og skemmst er að minnast þess þegar Marimbasveit Hafralækjarskóla kom og spilaði á markaðsdegi Akureyrardeildar sl. vor og átti með því  stóran þátt í að gera daginn eftirminnilegan, en afrakstur dagsins rann einmitt til barnaheimilisins.

Rauði krossinn færir þeim hjartans þakkir fyrir.