Kynningarfundur um verkefni heimsóknarvina á Húsavík

10. maí 2006

Markmið með starfi heimsóknarvina er að veita félagsskap, nærveru, hlýju og rjúfa einsemd.
Svæðisfulltrúi Rauða krossins á Norðurlandi hélt kynningarfund um heimsóknarþjónustu hjá Húsavíkurdeild Rauða krossins s.l. fimmtudagskvöld. Þetta er liður í því að koma á heimsóknarþjónustu hjá deildinni og er stefnt á að halda námskeið fyrir heimsóknarvini í haust.

Kynningin var öllum opin og mættu 11 manns. Skemmst er frá því að segja að allir sem voru á kynningunni skráðu sig á námskeiðið. Góðar umræður spunnust og voru fundarmenn sammála um mikilvægi verkefnisins og mikil þörf væri fyrir hana í samfélaginu.

Markmið heimsókna er að veita félagsskap, nærveru, hlýju og rjúfa þá einsemd sem oft á tíðum verður að vítahring sem erfitt er að rjúfa. Venjulega er miðað við eina klukkustund í senn, einu sinni í viku og fara heimsóknirnar fram á heimilum, sambýlum, dvalar - og hjúkrunarheimilum og fangelsum svo eitthvað sé nefnt. Gestgjafi og heimsóknarvinur ræða sín á milli hvernig tímanum er varið t.d. er hægt að lesa, spila, tefla, hlusta, föndra, tala saman, fara út að labba, fara saman út að keyra eða í bíó, allt eftir þörfum og óskum gestgjafa.

Rauði krossinn hefur haldið um 40 heimsóknarþjónustunámskeið á síðustu árum og í dag eru 150 sjálfboðaliðar að heimsækja um 200 gestgjafa víðs vegar um land. Sjálfboðaliðar af báðum kynjum og ýmsum aldri sinna heimsóknarþjónustu.