Vinadeildasamstarf á Norðurlandi

Hlé Guðjónsson

1. jún. 2006

Við ummerki flóða sem urðu í Mósambík á árunum 2000 og 2001. Flóð og fellibyljir eru tíðir og geta verið mjög mannskæðir.
Deildir Rauða kross Íslands á Norðurlandi hófu á síðasta ári vinadeildasamstarf við deildina í Mapútó í Mósambík. Tveir sjálfboðaliðar fóru í vettvangsferð til að komast að því hvernig samstarfinu yrði best háttað.

Nær allar deildir Rauða kross Íslands eru í samstarfi við deildir erlendis. Mest er unnið með deildum í Gambíu, Mósambík og Suður-Afríku, en auk þess er samstarf við tvær deildir í Serbíu og Svartfjallalandi.

Starf sjálfboðaliða Rauða krossins í Mósambík skoðað
?Við byrjuðum á vettvangsferð til Katembe héraðs. Þar kynntumst við því hvernig sjálfboðaliðar kenna fólki að hreinsa vatn til drykkjar. Sjálfboðaliðarnir fara á milli heimila og veita upplýsingar um viðbrögð við sjúkdómum vegna vatnsmengunar,? sagði Lára Ellingsen sjálfboðaliði hjá Akureyrardeild sem fór til að kynna sér starfsemi Rauða krossins í Mósambík. Með henni í för var Katrín María Andrésdóttir, sjálfboðaliði Skagafjarðardeildar.

Meginmarkmið þeirra var að skoða Rauða kross deildina í Mapútó héraði og þær gerðu á henni samskonar greiningu og Rauði krossinn á Norðurlandi hafði áður gert á eigin deildum. Til að fá sem mestar upplýsingar héldu þær einnig sérstakan fund með sjálfboðaliðum í Mapútó og fengu að vita hjá þeim hvaða verkefni væru best til þess fallin að styrkja sjálfboðastarf deildarinnar.

?Það kom okkur á óvart hvað starf sjálfboðaliða var mikið og fjölbreytt. Mjög mikið bar á hreinlætiskennslu fyrir almenning, en sjálfboðaliðar stóðu líka fyrir lestrarkennslu og annari fræðslu. Eitt af því sem skiptir miklu máli var fræðsla um veðurfréttir og veðurspár og hvernig beri að túlka viðvaranir. Flóð og fellibyljir eru tíðir í Mósambík og geta verið mjög mannskæðir. Sjálfboðaliðar voru að sjálfsögðu líka með alnæmisfræðslu og skyndihjálp í skólum svo að fátt eitt sé nefnt,? sagði Lára.

Barnaheimilið Boa Esperanca
?Eitt af verkefnum vinadeildasamstarfsins er stuðningur við Boa Esperanca barnaheimilið í Mapútó, en þar læra börnin störf sem seinna verða að lífsviðurværi þeirra,? sagði Katrín María. ?Við fengum að hitta ungan smið og hárgreiðslukonu sem bæði voru á þessum heimilum þegar þau voru börn. Þau eiga bæði sín eigin fyrirtæki í dag.?

Boa Esperanca barnaheimilið er fyrst og fremst athvarf fyrir börn sem eru munaðarlaus eða búa hjá einstæðri móður. Reynt er að finna nýjar fjölskyldur sem geta tekið þau að sér, en á daginn koma þau og fá að borða og fara í skóla. Lögð er áhersla á að kenna börnunum iðngreinar til að þau geti séð fyrir sér sjálf sem allra fyrst.

?Við sendum barnaheimilinu nýlega aukafjárveitingu til að gera við frárennsli. Miklar rigningar valda oft vatnsmengun og það getur stefnt heilbrigði barnanna í hættu. Í því sambandi má nefna að Hafralækjarskóli fékk breskan stúlknakór í heimsókn um páskana og það fé sem safnaðist á tónleikunum fer sennilega í að mála og gera við húsnæðið hjá Boa Esperanca,? sagði Katrín.

Fleiri sjálfboðaliðar
Í tengslum við vinadeildasamstarfið hafa deildir á Norðurlandi sett sér það markmið að fjölga sjálfboðaliðum heima fyrir. Mjög vel hefur gengið að afla nýrra sjálfboðaliða og á Akureyri sinna nú 20 manns heimsóknarþjónustu. Jafnframt eru margir nýir sjálfboðaliðar í fataflokkuninni.

Allar deildir Rauða krossins á Norðurlandi taka þátt í þessu vinadeildasamstarfi. Starf þeirra hefur eflst og aukist á margan hátt og víða er mun meira um að vera heldur en oft áður. Nefna má að Akureyrardeild heldur markaðsdaga til styrktar verkefninu í Mósambík og ýmsum öðrum málefnum. Annað fjáröflunarverkefni fyrir deildina í Mósambík felst í innrömmun og sölu á batíkmyndum frá Mósambík.

?Það er að miklu leyti hægt að rekja þennan aukna kraft í sjálfboðastarfinu til Mósambíkferðarinnar. Það varð deildum á Norðurlandi gríðarleg hvatning að sjá hversu öflugt sjálfboðastarf er hjá Rauða krossinum í Mósambík og við vitum að það er hægt að gera margt sem okkur hefði annars ekki dottið í hug. Þannig hefur vinadeildasamstarfið áhrif í báðar áttir. Það er ekki bara fólgið í fjárhagslegum stuðningi deilda á Norðurlandi við deildina í Mapútó, heldur skiptumst við líka á dýrmætri reynslu sem er báðum aðilum til góðs,? sagði Lára.

Það er margt á döfinni í vinadeildasamstarfinu á Norðurlandi í sumar og þar ber hæst heimsókn tveggja sjálfboðaliða frá Mapútó. Þeir koma norður þann 15. júní og verða í rúma viku. Heimsóknin er partur af því markmiði vinadeildasamstarfsins að styrkja deildirnar bæði hér og erlendis.

Margir eru einnig hjálpar þurfi hér heima
?Vinadeildasamstarfið hefur vakið athygli á Akureyri og annarsstaðar á Norðurlandi og bæði virkni innan deildarinnar og þátttaka almennings hefur aukist. Það er hins vegar mjög margt sem við getum gert hérna heima líka til að hjálpa þeim sem eiga um sárt að binda. Það eru margir hjálpar þurfi sem jafnvel búa í næsta húsi. Oft er það ekki efnahagslegur stuðningur sem mest þörf er á heldur skiptir meira máli að fólk sé reiðubúið að veita persónulegan stuðning þegar á reynir,? sagði Lára.