Þjóðahátíð á Sæluviku Skagfirðinga.

Gunnar Rögnvaldsson formann Skagafjarðardeildar

9. maí 2006

Það var þétt setinn bekkurinn á Þjóðahátíðinni sem Skagafjarðardeild Rauða krossins stóð fyrir.
Opið hús var í húsnæði Skagafjarðardeildar Rauða krossins fimmtudagsköldið 4. maí, á Sæluvikunni. Markmiðið var að kynna starf deildarinnar fyrir því erlenda fólki sem búsett er í héraðinu með það að markmiði að ná því að einhverju leiti inní starfið, s.s. túlkaþjónustu, en þó ekki síður til að vekja athygli á þeirri þjónustu sem Rauði krossinn stendur fyrir og einstaklingar af hvaða þjóðerni sem er geta leitað eftir.

Þar sem það er einnig löngu vitað að fátt trekkir betur að samkomuhaldi en matur var farið fram á að fulltrúar allra þeirra þjóða sem tök hefðu á mættu með einhverja smárétti sem gestir gætu smakkað á um leið og þeir blönduðu geði við gestgjafana.

Það er skemmst frá því að segja að vel tókst til með þessa frumraun. Fulltrúar 12 þjóða mættu með dýrindis mat, aðrir komu til að kynna sér hvað væri í gangi og vera með næst og nokkrir sem ætluðu að vera með komust ekki vegna anna.

Um 70 gestir komu í heimsókn og var ekki annað að sjá og heyra en uppátækið mæltist vel fyrir ef marka má viðbrögðin því mikið var spjallað, hlegið, boðið í kaffi og grill á báða bóga og jafnvel skipst á uppskriftum.

Á síðustu árum hefur fólki af erlendu bergi fjölgað mikið í Skagafirði þar sem það stundar margvísleg störf og auðgar mannlífið, listir og menningu héraðsins til muna. Sumir hafa dvalið nokkuð lengi, aðrir setjast að til reynslu og enn aðrir koma til tímabundinna starfa s.s. í sláturtíðinni eða til náms.

Með þær upplýsingar í farteskinu að fulltrúar um 20 þjóðlanda væru búsettir í Skagafirði var farið að hugleiða hvernig best væri að ná til þeirra. Undirbúningshópur var kallaður saman til skrafs og ráðagerða og þá kom í ljós mikill áhugi á að halda einhverskonar samkomu þar sem hægt væri að blanda geði og fræðast á gagnkvæman hátt um allt það ágæta fólk sem byggir Skagafjörð í dag. Tímasetningin var fljótákveðin því við hæfi er að bjóða upp á svona skemmtun á Sæluviku, hinni rótgrónu gleði og menningarhátíð Skagfirðinga sem er fyrir löngu orðin landsþekkt. 

Svo skemmtilega vildi til að inn í húsið rakst bandarískur trúbador Rosh að nafni sem ferðast um heiminn og heldur tónleika í heimahúsum. Hann var svo vinsamlegur að spila fyrir samkomuna. Einnig ávarpaði Árni Gunnarsson formaður innflytjendaráðs og fyrrverandi formaður Flóttamannaráðs gesti.

Í ljósi þess hve vel tókst til núna er mjög líklegt að framhald verði á að ári og þá jafnvel enn stærra í sniðum því eins og þekkt er þá elur fáfræði á fordómum og svona samkomur eru kjörnar til að eyða þeim.

Hægt er að sjá fleiri myndir af hátíðinni. Með því að smella á mynd opnast hún í stærri útgáfu.