Heimsóknarvinum fjölgar hjá Akureyrardeild

20. okt. 2006

Miðvikudaginn 18. október sl. var haldið námskeið fyrir verðandi heimsóknarvini hjá deildinni. Þetta var annað námskeiðið sem haldið hefur verið á þessu fyrsta ári sem verkefnið hefur verið í gangi hjá deildinni og því óhætt að segja að það fari vel af stað.  Á námskeiðinu fræddi Guðný H. Björnsdóttir, svæðisfulltrúi Rauða kross Íslands á Norðurlandi, þátttakendur um flest það sem viðkemur heimsóknarþjónstunni. Farið var í stuttu máli yfir sögu og starf Rauða krossins og starfsemi  Akureyrardeildar var kynnt. Tveir sjálfboðaliðar úr heimsóknarþjónustunni, hjónin Júlía Björnsdóttir og Þorsteinn E. Arnórsson,  sögðu einnig frá reynslu sinni og aðkomu að verkefninu en þau sóttu einmitt fyrra námskeiðið sem haldið var í janúar og hafa síðan  sinnt heimsóknum fyrir deildina.

Heimsóknarvinir deildarinnar fylla nú  brátt þriðja tuginn og veitir sannarlega ekki af því fyrirspurnum og ábendingum um notendur ( gestgjafa ) fjölgar jafnt og þétt.

Heimsóknarvinur veitir félagsskap m.a. með því að spjalla, spila eða fara í göngu- eða ökuferðir. Heimsóknir eru að jafnaði einu sinni í viku klukkutíma í senn Heimsóknarvinir og gestgjafar þeirra eru á ýmsum aldri og af báðum kynjum. Heimsóknarvinir hittast reglulega og fá ýmsa fræðslu.

Hafir þú áhuga á verkefninu hvort heldur sem heimsóknarvinur eða sem gestgjafi þá eru nánari upplýsingar veittar á skrifstu Akureyrardeildar í síma 461 2374 eða [email protected]