Fræðsla, glens og gaman á sumarbúðum Rauða krossins

10. okt. 2006

Sumarbúðir Rauða krossins voru starfræktar áttunda sumarið í röð. Boðið var upp á þrjú tímabil, tvö á Löngumýri og eitt í Stykkishólmi. Sumarbúðarstjórar voru þeir Karl Lúðvíksson, á Löngumýri og Gunnar Svanlaugsson, í Stykkishólmi. Þátttakendur komu víða að og voru samtals 36. 

Eitt meginmarkmiðið með rekstri búðanna er að bjóða einstaklingum sem búa við einhvers konar fötlun upp á skemmtilega og fræðandi sumardvöl þar sem lífsgleði, lærdómur og ljúfmennska ráða ríkjum.

Dagskrá sumarbúðanna var með svipuðu sniði og undanfarin ár. Fastir liðir eins og venjulega  voru:  Fræðsla um Rauða krossinn og grundvallarmarkmiðin 7 í tengslum við Solferinoleikinn, fyrirlestur og verkleg kennsla í skyndihjálp, ýmsar íþróttir svo sem borðtennis, gönguferðir, fótbolti, júdó og sund, fjallganga, sjóferð, flúðasiglingar og hestamennska, morgunstund, kvöldvaka og diskótek og kynnis- og skoðunarferðir. 

Að þessu sinni bættist golf við dagskrána bæði míni-golf við Löngumýri og alvöru golfæfing á golfvellinum á Sauðárkróki. Ásgeir Einarsson, formaður Golfklúbbs Sauðárkróks, bauð aðstöðu klúbbsins og þann búnað sem þurfti án endurgjalds. Mikil ánægja var með golfæfinguna og margir sýndu góða takta. 

Gönguferð var farin á fjallið Molduxa. Björgunarsveitin lánaði bíl og keyrði Ingvar Gígjar fjallgöngugarpana langleiðina upp fjallið.

Þegar farið var til Siglufjarðar til að fara á hestbak, fræðast um Siglufjörð og skoða Síldarminjasafnið, kom það í hlut hins gamla og góða Rauða kross manns, Jóns Dýrfjörð, að taka á móti hópnum fyrir hönd Siglufjarðardeildar Rauða krossins. Brennandi af áhuga, umhyggju og hlýju fræddi hann um sögu Siglufjarðar og greiddi götu hópsins eftir þörfum.  Á Síldarminjasafninu tók á móti hópnum ung stúlka sem annaðist leiðsögn á einstaklega lifandi og skemmtilegan máta.

Á safninu voru til sölu bolir, merktir í tilefni af 100 ára síldarævintýri og á þeim stóð „Silfur hafsins – gull Íslands – guðsgjöf”. Þegar Jón Dýrfjörð sá að þessir bolir freistuðu nokkurra þátttakenda tilkynnti hann að allir ættu að fá svona boli og að hann ætlaði að borga í nafni dóttur sinnar sem á við mikla fötlun að stríða og dvelur á sambýlinu á Siglufirði.

Ef á þarf að halda geta fylgdarmenn komið með þátttakendum. Að þessu sinni var það gert í nokkrum tilvikum. Sumir eru bara einn til tvo daga, eða eins lengi og þarf, til að setja starfsfólkið inn í ýmsar sérþarfir og lyfjagjöf en aðrir eru allt tímabilið. Einnig komu nokkrir sjálfboðaliðar að venju til að létta undir og blanda geði við okkar ágætu sumarbúðagesti. 

„Liðsinni þessa fólks er mjög mikilvægt og getur gerbreytt líðan og þátttökumöguleikum viðkomandi til hins betra svo um munar,” sagði Karl Lúðvíksson sumarbúðastjóri.

„Sem fyrr tel ég að Sumarbúðir Rauða krossins hafi sannað sig sem kjörinn vettvangur til að sýna mannúð í verki og þótt nauðsynlegt sé að hafa nokkra launaða starfsmenn má ekki gleyma því að sumarbúðirnar eru góður kostur fyrir áhugasama sjálfboðaliða Rauða krossins til að aðstoða við dagskrána og/eða koma í heimsókn og kynnast þessu frábæra verkefni okkar betur, sagði Karl að lokum.

Nokkur fyrirtæki veittu styrk til sumarbúðanna: Sparisjóður Siglufjarðar, Sparisjóður Skagafjarðar, KBbanki og Landsbanki Íslands á Sauðárkróki.

Sjá myndir frá sumarbúðunum: