Nemendur og starfsfólk í Árskóla styðja börn í Mósambík

28. des. 2006

Efnt var til söfnunar í framhaldi af þemaviku um Afríku sem haldin var í Árskóla á Sauðárkróki í lok nóvember síðastliðinn. Nemendur og starfsmenn voru hvattir til að gefa sem svaraði andvirði eins matarmiða eða um 160 kr. og styðja um leið starf Rauða kross Íslands við börn í Mósambík.

Söfnunin gekk vel og margir lögðu fram drjúgan skerf  úr sparibauknum. Alls söfnuðust um 62 þúsund krónur. Söfnunarféð mun renna óskipt til barnaheimilisins Boa Esperansa í Mósambík. Á heimilinu njóta fátæk börn í Maputoborg menntunar í verkgreinum og fá með því möguleika á að sjá sér og sínum farborða í framtíðinni.

Rauði kross Íslands og deildir hans á Norðurlandi hafa undanfarin ár styrkt rekstur barnaheimilisins og víst er að framlagið frá nemendum og starfsfólki í Árskóla mun koma að góðum notum.