Öflugur skyndihjálparhópur meðal deilda Rauða krossins á Norðurlandi

18. jan. 2007

Deildir Rauða krossins á Norðurlandi hafa unnið að því á undanförnum mánuðum að koma á fót viðbragðshópi í skyndihjálp. Aukin þörf er fyrir vel þjálfað fólk í skyndihjálp á fjöldahjálparstöðvum.

Hópurinn samanstendur af áhugasömum einstaklingum sem tilbúnir eru til að vera til taks ef á þarf að halda og er ljóst að tilvist skyndihjálparhópsins mun efla neyðarvarnakerfi deildanna á svæðinu.

Karl Lúðvíksson að æfa sig á að taka blóðsýni, Jón Þorsteinn situr æðrulaus í stólnum.
 
Guðný Bergvinsdóttir leiðbeinir Valdimar Gunnarssyni við að mæla blóðþrýsting.
Haldin eru nokkur námskeið þar sem fram fer ákveðin grunnþjálfun. Eftir að þjálfuninni er lokið er meiningin að hópurinn skipuleggi sjálfur viðhaldsþjálfun sína. Mun hann hittast reglulega til að viðhalda og auka kunnáttu sína.

Námskeið sem haldið var laugardaginn 13. janúar var númer tvö í röðinni og mættu 15 manns, frá  5 deildum. Það helsta sem farið var í að þessu sinni voru: bráðir sjúkdómar, bráðavandamál tengd öndun, súrefnisgjöf, endurlífgun, drukknun auk verklegra æfinga.
 
Leiðbeinendur voru þau Ása Eiríksdóttir læknir, Jón Knutsen, sjúkraflutnings- og slökkviliðsmaður og Guðný Bergvinsdóttir, hjúkrunarfræðingur.