Ein fjölmennasta neyðarvarnaræfing í sögu Rauða krossins

27. mar. 2006

Davíð Oddsson var staddur í Fljótshlíðinni og mætti rétt fyrir lokun í fjöldahjálparstöðina á Hellu. Hann hafði á orði að hann hefði sennilega drukknað þar sem boðin bárust honum ekki.
Rúmlega 100 þátttakendur frá Rauða krossi Íslands voru í almannavarnaæfingunni Bergrisinn 2006 nú um helgina. Þetta er ein fjölmennasta æfing sem Rauði krossinn hefur átt aðild að, en hún var lokahnykkurinn í gerð nýrra viðbragðs- og rýmingaráætlana fyrir áhrifasvæði eldgosa, jökulhlaupa og gjóskufalls frá Mýrdals- og Eyjafjallajöklum.

Alls komu um 870 manns  til skráningar í fjöldahjálparstöðvar Rauða krossins á Klaustri, Vík, Skógum, Hvolsvelli og Hellu eftir að hafa fengið boð um að yfirgefa heimili sín vegna yfirvofandi eldgoss í Kötlu. Um 1200-1300 íbúar voru innan rýmingarsvæðisins, og er þetta því um 70% hlutfall af íbúum sem létu skrá sig á fjöldahjálparstöðvum Rauða krossins. 

Vegna flóðahættu úr austanverðum jöklinum þurfa íbúar Álftavers og hluta Meðallands að yfirgefa heimili sín og fara í fjöldahjálparstöð á Kirkjubæjarklaustri. Íbúar þess hluta Víkur í Mýrdal sem stendur næst sjó fara til skráningar í leikskólanum í Suður - Vík sem er uppi í hlíðunum og utan hættusvæðis. Þá koma íbúar frá Sólheimum í Mýrdal til Víkur vegna flóðahættu úr Sólheimajökli niður í farveg Jökulsár á Sólheimasandi. Fólk sem býr undir Vestur Eyjafjöllum, Frá Markarfljóti að Holtsós fór til skráningar í Skógum. Íbúar í Fljótshlíð, austur og vestur Landeyjum, Rangárvöllum neðan þjóðvegar eitt og Þykkvabæ fóru langflestir til skráningar á Hvolsvöll og einnig á Hellu.

Þetta er í fyrsta sinn sem viðbrögð við Kötlugosi eru æfð vegna flóðahættu úr vestanverðum Mýrdalsjökli en æfð hefur verið í nokkur skipti rýming vegna flóðs úr Mýrdalsjökli austanverðum allt frá árinu 1974. Sjálfboðaliðar úr deildum Rauða krossins í Vík, á Kirkjubæjarklaustri og í Rangárvallasýslu tóku virkan þátt í æfingunni og sáu um að manna fjöldahjálparstöðvarnar.

Starfsemin í fjöldahjálparstöðvum Rauða krossins er mikilvægur hlekkur í almannavörnum og er unnin samkvæmt neyðarvarnakerfi félagsins. Skráningargögn eru keyrð saman við íbúaskrár til að upplýsingar liggi fyrir um hverra er saknað svo hægt sé að veita viðeigandi aðstoð. Þá fara upplýsingar einnig til Hjálparsíma Rauða krossins 1717 þangað sem vinir og vandamenn geta hringt og leitað fregna um afdrif ástvina sinna innan hættusvæðisins.

?Samhæfing skiptir öllu máli í svona fjöldahjálparæfingu og  það er nauðsynlegt að samræma allar áætlanir er varða viðbrögð við svona vá,? sagði Herdís Sigurjónsdóttir verkefnisstjóri neyðarvarna á landsskrifstofu Rauða kross Íslands og einn fulltrúa félagsins í Samhæfingarstöð. ?Í kjölfarið verður unnið úr gögnum helgarinnar og sett fram heildstæð áætlun hvað snertir fjöldahjálparstöðvar með öllum deildum Rauða krossins á svæðinu.?

Flestir sem tóku þátt í æfingunni eru með fjöldahjálparstjóraréttindi og ganga því inn í verkefnin af þekkingu en geta einnig leiðbeint öðrum sjálfboðaliðum Rauða krossins sem koma til starfa í fjöldahjálparstöðvunum.