Ólafsfjarðardeild fagnar 50 ára starfsemi

3. okt. 2011

Ólafsfjarðardeild Rauða krossins var stofnuð 24. september 1961. Að því tilefni var haldið hóf á afmælisdaginn nú í september þar sem stjórn deildarinnar bauð bæjarbúum og velunnurum í kaffisamsæti. Fulltrúi sveitarstjórnar Fjallabyggðar, Ingvar Erlingsson afhenti deildinni styrk. Helga Stefánsdóttir formaður kynnti sögu og starfsemi deildarinnar og heiðraði sjálfboðaliða.

Gefum Helgu Stefánsdóttur orðið:
Gunnlaugur Þórðarson lögfræðingur sem var í stjórn Rauða kross Íslands beitti sér fyrir stofnun deildarinnar. Hann mælti sér mót við Guðlaugu Gunnlaugsdóttur og óskaði liðsinnis hennar við að koma á fót félagsdeild í bænum. Guðlaug tók vel í það og var fús til að taka sæti í væntanlegri stjórn en aftók hins vegar að verða formaður hennar. Hún varð engu að síður kosinn formaður deildarinnar á stofnfundinum og gegndi því starfi til ársins 1994. Guðlaug braut þar með blað í sögu félagsins og varð fyrst kvenna til að leiða deild innan Rauða kross Íslands. Í fyrstu stjórn sátu Guðlaug Gunnlaugsdóttir formaður, Björn Stefánsson ritari og Brynjólfur Sveinsson. Síðar bættust við í stjórnina Þórgunnur Rögnvaldsdóttir, Rósa Sigurðardóttir og Esther Guðbrandsdóttir.

Hlutverk deildarinnar á þeim tíma var að fara í húsvitjanir til eldra fólks í bænum. Sjálfboðaliðar tóku að sér að þvo þvott ásamt ýmsu öðru. Einnig var farið af stað með fataflokkun og var það Rósa Helgadóttir og Þórgunnur Rögnvaldsdóttir auk fleiri sjálfboðaliða sem sáu um að flokka fötin og gera við ef þyrfti. Fötin voru svo send til Danmerkur.

Á fyrstu árum deildarinnar var starfrækt unglingadeild sem fékk nafnið Röskar stúlkur. Hópurinn hittist einu sinni í viku í húsnæði leikfélags Ólafsfjarðar þar sem deildin leigði aðstöðu. Unglingadeildin var við lýði á annað ár og fór ein stúlka af hópnum erlendis sem fulltrúi Ólafsfjarðardeildar til að hitta aðrar starfrækjandi Unglingadeildir.

Sjúkrabíll kom til sögunnar
Á árunum 1979-1980 var farið að ræða um að kaup á sjúkrabíl. Mikill áhugi var fyrir hendi og voru átta karlmenn fúsir til þess að annast akstur og umhirðu bifreiðarinnar endurgjaldlaust í eitt ár. Þetta voru þeir Kristján Jónsson, Sveinn Stefánsson, Gylfi Jóhansson, Helgi Þórðarson, Gunnar Steinsson, Héðinn Baldvinsson, Jóhann Helgason og Óskar Gíslason. Stjórn var sett á laggirnar sem var aðeins ætluð rekstri sjúkrabíls. Stjórnina skipuðu Kristján Jónsson formaður, Jóhann Helgason gjaldkeri og Sveinn Stefánsson ritari. Að því loknu var farið að ræða um fjáröflun til að fjármagna bílinn, ýmsar hugmyndir komu upp og má þar nefna, bingó, diskótek, bakað var brauð í togarana, seldar voru skyndihjálpartöskur og leitað var til fyrirtækja i bænum. Auk þess komu framlög frá einstaklingum og félagasamtökum.

Bíllinn kom alveg hrár að innan og smíða þurfti innréttingar í hann og kaupa ýmis tæki og tól. Öll vinna við hann var unnin í sjálfboðaliðavinnu og má þakka þeim Jóni Ævari Klemenssyni og Einari Jakobssyni fyrir þeirra framlag. Áttmenningarnir sem voru fúsir til að sjá um akstur og umhirðu endurgjaldslaust í 1 ár gerður það í 12 ár!! Óskar Gíslason varð fyrstur til að taka námskeið í sjúkraflutningum og fór til Reykjarvíkur til að ná sér í réttindin, Óskar er enn starfandi við sjúkraflutninga í dag.

Á þessum tíma státaði deildin af skyndihjálparkennara, Ragnheiði Brynjólfsdóttur og sá hún um að sjúkraflutningamennirnir fengu skyndihjálparnámskeið. Einnig fóru stjórnarmenn á námskeið.

Árið 1982 tók Dvalarheimilið Hornbrekka til starfa. Ákvað deildin að gefa Hornbrekku að gjöf vel innréttað herbergi fyrir hársnyrtingu og einnig fótasnyrtingu. Vistfólkið gat notið góðs af þessu góða herbergi og komu tvær hárgreiðslukonur til að sinna því og einnig kom kona sem hafði lært fótsnyrtingu í Danmörku. Guðlaug formaður aðstoðaði svo við fótsnyrtinguna í sjálfboðavinnu. Deildin sá alfarið um að borga hárgreiðsluna en borgaði part í fótsnyrtingunni á móti bænum og hélt því áfram allt til ársins 2010. Guðlaug fór líka einu sinni til tvisvarí viku og las fyrir vistfólkið á Hornbrekku og má segja að með þessu starfi hafi hún verið í hlutverki þess sem við köllum í dag heimsóknavini.

Mig langar að nefna þá sem hafa gegnt hafa formennsku Rauða kross deildar Ólafsfjarðar; Guðlaug Gunnlaugsdóttir, Róslaug Gunnlaugsdóttir, Sigrún Sigurðardóttir, Ingi Þór Reyndal og svo ég (Helga Stefánsdóttir) og í stjórn með mér starfa Auður Eggertsdóttir ritari, Birna Björnsdóttir gjaldkeri, Rut María meðstjórnandi, Rúnar Gunnarsson meðstjórnandi, Snjólaug Kristinsdóttir meðstjórnandi og Sigríður Munda meðstjórnandi.

Deildin þakkar öllu þessu frábæra fólki fyrir vel unnin störf í þágu deildarinnar auk allra annarra sem hafa komið að starfi deildarinnar.

En nú langar mig aðeins að segja ykkur frá starfsemi deildarinnar eins og hún er í dag hjá okkur.

Aðalverkefni deildarinnar er fatasöfnunin en hefur hún aukist til muna með tilkomu fatagáms sem er staðsettur á gámasvæði hér í bæ. Þar getur fólk auðveldlega komið fötum til okkar. Einnig er verkefnið Föt sem framlög að stækka og höfum við verið dugleg að pakka ungbarnapökkum sem koma að góðrum notum í Hvíta Rússlandi. Nú er einnig farið að pakka til barna á aldrinum 2ja -12 ára. Þessi vinna er gefandi og alltaf gaman að geta hjálpað öðrum. Neyðaraðstoð hefur líka verið stór hluti af verkefnum deildarinnar.

Námskeið í skyndihjálp og sálrænum stuðningi eru haldin reglulega og hafa verið vel sótt. Nú í haust munum við verða með almennt skyndihjálparnámskeið og þar sem deildin er að senda nýjan fulltrúa á leiðbeinendanámskeið mun hann sjá um námskeiðið fyrir okkur. Einnig hefur deildin séð um að 10. bekkingar fái skyndihjálparnámskeið og að krakkar á aldrinum 13-15 ára fái verkefni sem felst í því að hugsa um dúkkur sem líkja eftir nýburum. Þar þurfa krakkarnir að hugga, fæða og skipta á barninu og í lokin fá þau einkunn sem fer eftir því hversu vel var hugsað um barnið.

Svo er það Heimsóknavinur en það er verkefni sem að Rauða kross deildir víðsvegar um landið sinna og felst í því að einstaklingar sem hafa sótt námskeið fara í heimsóknir til eldra fólks til að ræða um daginn og veginn. Okkur vantar einstaklinga til að sinna þessu starfi, áhugasamir hafi samband við stjórnina.

Og í lokin langar mig til að segja ykkur hvað er á döfinni hjá deildinni. Í vikunni 17.-22. október er Rauðakrossvika en þar er lögð áhersla á ár sjálfboðaliðans. Í ár ætlum við að leggja áherslu á heimsóknavini og bjóða fólki að koma á kynningu og hlusta á einstakling innan félagsins sem hefur sinnt þessari þjónustu.

Óskar Gíslason sjúkraflutningamaður og Þórgunnur Rögnvaldsdóttir, stjórnarmaður til margra ára, ásamt Helgu Stefánsdóttur formanni deildarinnar.
Helga ásamt Kolbrúnu Jóhannsdóttur prjónavini og Róslaugu Gunnlaugsdóttur fyrrverandi formanni.
Helga heiðrar Rósu Helgadóttur sem vinnur við fataverkefni deildarinnar.
Ingvar Erlingsson afhnendir Helgu gjafabréf frá Fjallabyggð.