Toshiki Toma á kaffihúsakvöldi á Akranesi

30. apr. 2007

Rauði krossinn á Akranesi hefur í vetur staðið fyrir kaffihúsakvöldum einu sinni í mánuði þar sem gestum og gangandi er boðið upp á kaffisopa og fræðslu um málefni sem tengjast Rauða krossinum.

Fimmtudaginn 26. apríl var Toshiki Toma sérstakur gestur á kaffihúsakvöldi og sagði frá reynslu sinni af því að vera innflytjandi á Íslandi. Jafnframt fjallaði hann almennt um líf innflytjenda, áhrifaríkar leiðir til gagnkvæmrar aðlögunar og heimsóknir sjálfboðaliða Rauða krossins til hælisleitenda.

Frásögn hans vakti marga til umhugsunar og miklar umræður spunnust í kjölfarið um stöðu innflytjenda á Íslandi og hvernig við getum best tekið á móti þeim sem hingað kjósa að flytjast. Toshiki brýndi fyrir gestum að gleyma því aldrei að þó tæknilegar flokkanir í hópa eins og innflytjendur, sjúklinga, geðfatlaða eða aldraða kunni að vera nauðsynleg megum við aldrei gleyma því að þegar öllu er á botninn hvolft erum við öll manneskjur fyrst og síðast.

Boðskapur Toshiki var: leggjum okkur fram við að finna manneskjuna þegar við eigum samskipti við aðra – í stað þess að einblína á ytri aðstæður hennar.