32 sjálfboðaliðar til liðs við Ólafsfjarðardeild

25. okt. 2011

Heimsóknavinir og Föt sem framlag voru þau tvö verkefni sem Ólafsfjarðardeildin hafði í brennidepli á Rauðakrossvikunni 17.-22. október. Sjálfboðaliðar stóðu vaktina í versluninni Samkaup-Úrval á miðvikudeginum. Lögð var áhersla á að fá fleiri sjálfboðaliða til liðs við deildina.

Bæjarbúar sýndu starfi deildarinnar mikinn áhuga og þegar upp er staðið bættust við 32 sjálfboðaliðar sem stjórnin er að vonum hæstánægð með.

Á fimmtudagskvöldinu var haldin kynning á heimsóknavinaverkefninu í Sandhóli þar sem tveir sjálfboðaliðar Siglufjarðardeildar komu og sögðu frá sinni reynslu sem heimsóknavinir. Nokkrir af nýju sjálfboðaliðunum eru tilbúnir að gerast heimsóknavinir og verður því áhersla lögð á að setja upp heimsóknavinanámskeið við fyrsta tækifæri svo hægt sé að hefjast handa.