Starfið á árinu 2006

14. maí 2007

Á Norðurlandi eru 13 deildir: A- Húnavatnssýsludeild, Akureyrardeild, Dalvíkurdeild, Húsavíkurdeild, Hvammstangadeild, Ólafsfjarðardeild, Raufarhafnardeild Siglufjarðardeild, Skagafjarðardeild, Skagastrandardeild, Þórshafnardeild, Strandasýsludeild og Öxarfjarðardeild. Svæðið nær frá Strandasýslu til Þórshafnar. Aðalfundur svæðisins var haldinn 30. september á Blönduósi. Haldnir voru sjö fundir í svæðisráði þar af þrír símafundir. Svæðisráð var skipað Einari Óla Fossdal formanni A- Húnavatnssýsludeild, sem var að ljúka setu í svæðisráði, Elsu Björk Skúladóttur Húsavíkurdeild og Sigurði Ólafssyni Akureyrardeild. Nýr aðili frá vestursvæði var kjörin María Sigurðardóttir frá Hvammstangadeild. Formaður svæðisráðs er Elsa Björk Skúladóttir. Svæðisskrifstofa Rauða krossins á Norðurlandi er staðsett á Austurgörðum, Kelduhverfi.

Vinadeildasamstarf
Fimmtudaginn 15. júní komu þau Rafael Muando og Maria Tinga í heimsókn frá vinadeild svæðisins í Maputu í Mósambik. Þau heimsóttu fjórar deildir á Norðurlandi, en þar sem starfssvæðið er stórt og tíminn takmarkaður var ekki möguleiki á að heimsækja fleiri deildir. Sameiginlegir kvöldverðir fyrir deildir á austurhluta Norðurlands var haldinn á Akureyri og vesturhluta á Löngumýri í Skagafirði. Þau dvöldu í átta daga og luku heimsókninni á höfuðborgarsvæðinu þar sem þau heimsóttu landsskrifstofuna og Kjósarsýsludeild.

Vinadeildasamstarfið var með hefðbundnu sniði, sjálfboðaliðar deildarinnar í Maputo og rekstur götubarnaheimilisins Boa Esperanca styrkt. Skipst var á fréttabréfum milli deilda á Norðurlandi og deildarinnar í Maputo. Mikil gróska var í batikmyndasölu. Svæðið fær myndir sendar að utan og sjálfboðaliðar Akureyrardeildar hafa séð um innrömmun. Hagnaði er varið til að styrkja starfið á barnaheimilinu.

Sumarbúðir
Sumarbúðir voru reknar á Löngumýri í Skagafirði og í Stykkishólmi. Tvö tímabil voru í Skagafirði og eitt í Stykkishólmi. Þátttakendur voru á bilinu 30 og 40. Deildir á Austurlandi, Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu hafa stutt dyggilega við það starf með fjárframlögum.

Fjöldahjálp
Fjöldahjálparstjóranámskeið var haldið á Akureyri í janúar og sóttu það 13 manns frá sex deildum.

Námskeið fyrir aðstandendur og áhugafólk um geðheilbrigðismál
Haldið var námskeið um geðheilbrigðismál í janúar á Akureyri og sóttu það um 100 manns. Í nóvember var haldið annað námskeið á Siglufirði og sóttu það hátt í 40 manns. Sjálfshjálparhópar fóru víða í gang í kjölfar námskeiðanna.

Setrið
Athvarf fyrir geðfatlaða, Setrið á Húsavík hóf starfsemi. Opnað var formlega þann 10. október. Markmið athvarfsins eru meðal annars að skapa batahvetjandi stuðningsúrræði og efla sjálfstraust og ábyrgð til félagslegrar þátttöku. Athvarfið verður rekið sem tilraunaverkefni næstu 15 mánuði en að því standa Húsavíkurdeild Rauða krossins, Félags- og skólaþjónusta Þingeyinga og Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. Setrið verður opið þrjá daga í viku til að byrja með.

Deildarnámskeið
Haldið var deildarnámskeið í Lundi í Öxarfirði og sóttu það Rauða kross félagar frá austur deildunum.

Heimsóknaþjónusta
Í byrjun árs var haldið námskeið fyrir heimsóknavini hjá Akureyrardeild og í framhaldinu fór verkefnið í fullan gang. Annað námskeið var haldið að hausti. Kynning á verkefninu var haldin hjá Húsavíkurdeild. Auk Akureyrardeildar eru Skagastrandadeild, Skagafjarðardeild Öxafjarðardeild með heimsóknaþjónustu.

Skyndihjálp
Haldið var námskeiðið „Skyndihjálp og björgun” á Þórshöfn. Þátttakendur komu einnig frá Raufarhöfn og Vopnafirði.

Skólafræðsla
Akureyrardeild var í samstarfi við Verkmenntaskólann á Akureyri og Menntaskólann á Akureyri um að kynna starf Rauða krossins nemendum. Í báðum tilfellum var kynningin hluti af lífsleikninámi. Í Verkmenntaskólanum fengu nemendur almenna kynningu á Rauða krossinum en í Menntaskólanum var um ákveðið verkefni að ræða þar sem nemendum var ætlað að leggja til fimm til sjö klukkustundir í samfélagsþjónustu. Nemendur sinntu ýmsum verkefnum fyrir félagasamtök og stofnanir og hjá Rauða krossinum aðstoðuðu nemendur við fataflokkun, kynntu sér rekstur deildarinnar og aðstoðuðu í Laut sem er athvarf fyrir geðfatlaða. Nemendur skiluðu síðan skýrslu um verkefnið og kynntu það í opinni málstofu.

Deildir á Norðurlandi hófu í lok ársins samvinnu við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra um hlutverkaleikinn Á flótta. Í skólanámskrá Fjölbrautaskólans er nú að finna valáfangann FLÓ 101 sem felur í sér að nemendur taki þátt í leiknum og skrifi ritgerð um upplifun sína. Vonast er til að á bilinu 40–60 nemendur taki þátt í leiknum hverju sinni. Leiðbeinendur frá deildum Rauða krossins á Norðurlandi sjá um verkefnið í samstarfi við Ungmennadeild Reykjavíkurdeildar Rauða krossins.

Skyndihjálparhópur
Á haustmánuðum var komið á laggirnar skyndihjálparhópi og eru fulltrúar í honum frá fimm deildum, alls 15 manns. Ætlunin er að þetta verði vel þjálfaður viðbragðshópur sem kalla má út ef upp kemur meiriháttar slys. Hópurinn hittist í húsnæði Akureyrardeildar þar sem að þjálfunin fer fram að mestu leiti.