Margar hlýjar hendur

11. jún. 2007

Það var nokkurs konar uppskeruhátíð hjá konunum á Dalbæ, dvalarheimili aldraðra á Dalvík, er þær afhentu Rauða krossinum mikið magn af hannyrðum sem þær hafa prjónað í vetur í verkefnið „Föt sem framlag". Ekki er nema rúmt ár síðan Rauði krossinn tók við álíka gjöf frá þeim.

Konurnar sögðust ætla að taka hlé frá prjónaskapnum í sumar en þó heyrðist í einhverju horni að þegar væri búið að fitja upp á nýju teppi.
 
Símon Páll Steinsson, formaður Dalvíkurdeildar og Guðný Björnsdóttir, svæðisfulltrúi heimsóttu konurnar á fimmtudaginn þar sem þau tóku á móti 46 ungbarnapökkum, 60 teppum og ungbarnafatnaði sem þær og starfsfólk höfðu safnað.