Fjölsmiðja stofnsett á Akureyri

9. júl. 2007

Í dag var skrifað undir skipulagsskrá fyrir Fjölsmiðjuna á Akureyri í húsnæði Rauða krossins, Viðjulundi 2. Skipuð var stjórn sem skipti með sér verkum. Formaður er Úlfar Hauksson.

Fjölsmiðja er atvinnutengt úrræði fyrir ungt fólk á krossgötum sem hefur flosnað upp úr námi eða vinnu. Ungmennunum er hjálpað við að finna sér stað í lífinu og byggja sig upp fyrir framtíðina.  Í Fjölsmiðjunni er verkþátturinn virkjaður svo unga fólkið öðlist reynslu og verði hæfara til að finna sér starfsgrein eða að fara í frekara nám. 

Fjölsmiðjunni á Akureyri er ætlað að aðstoða ungt fólk á Eyjafjarðarsvæðinu við að finna sér nýjan farveg í lífinu. Þessir einstaklingar sem eru á aldrinum 16-24 ára eru atvinnulausir vegna reynsluleysis, menntunarskorts, félagslegra og/eða andlegra vandamála. Um 25% allra sem eru á atvinnuleysisskrá á svæðinu tilheyra þeim aldurshópi. 

Fjölsmiðjan er vinnusetur og felst starfsemi hennar einkum í framleiðslu vara, faglegri verkþjálfun og ýmis konar þjónustu. Byggt verður á reynslu Fjölsmiðjunnar í Kópavogi sem starfað hefur frá árinu 2001.

Stofnaðilar að Fjölsmiðjunni á Akureyri eru Rauði krossinn, Akureyrarbær, Vinnumálastofnun, Eining-Iðja, og Félag verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri. Stofnfé Fjölsmiðjunnar er 31 milljón króna.

Bundnar eru miklar vonir við starfsemi Fjölsmiðjunnar á Akureyri og að fjölmörgu ungu fólki gefist þar tækifæri til að skapa sér nýja möguleika í starfi eða námi.

Í stjórn fjölsmiðjunnar eru Úlfar Hauksson f.h. Rauða kross Íslands, Hafsteinn Jakobsson f.h. Akureyrardeildar Rauða krossins, Sigrún Stefánsdóttir f.h. Akureyrarbæjar, Arna Jakobína Björnsdóttir f.h. Vinnumálastofnunar, Ásgerður Ólafsdóttir f.h. Menntanmálaráðuneytis og Matthildur Sigurjónsdóttir f.h. stéttarfélaganna í Eyjafirði.