Hlýlegt andrúmsloft á sumarbúðum Rauða krossins

17. júl. 2007

Það er líf og fjör á Löngumýri í Skagafirði þessa dagana þar sem sumarbúðir Rauða krossins fyrir fatlaða einstaklinga standa yfir.

Dagskráin er hlaðin skemmtilegum uppákomum. Fyrsta daginn var farið yfir undirstöðuatriði skyndihjálpar og horft á mynd um sögu og starf Rauða krossins. Eftir það var farið í leik sem byggir á grundvallarmarkmiðunum sjö um mannúð, óhlutdrægni, hlutleysi, sjálfstæði, sjálfboðna þjónustu, einingu og alheimshreyfingu. Síðar verður farið á hestbak, í flúðasiglingar, sjóferð, fjallgöngu og ýmsa leiki. Daglega er farið í sund í Varmahlíð og endað með kvöldvöku þar sem flestir leggja til efni.

Margeir hrósar sigri í leiknum.
„Það er einstakt andrúmsloft á sumarbúðunum. Allir fá að spreyta sig á verkefnum við sitt hæfi og eru virkir í leikjum dagsins. Það sem stendur upp úr er lífsgleðin sem skín úr hverju andliti,” segir Gunnar Rögnvaldsson formaður Skagafjarðardeildar Rauða krossins.

„Karl Lúðvíksson sumarbúðastjóri sem hefur helgað sig sjálfboðnu starfi fyrir Rauða krossinn um áratuga skeið er hinn sanni sjálfboðaliði sem ævinlega tekur málstað lítilmagnans og leitast við að gera öllum lífið eins gott og hægt er. Hann getum við öll tekið okkur til fyrirmyndar,” segir Gunnar.

Flestir sem starfa á Löngumýri hafa verið með frá byrjun. Þar ríkir heimilislegt andrúmsloft, allir ganga til sinna starfa af alúð og samviskusemi sem er undirstaða þess öryggis sem sumarbúðargestir sækja í ár eftir ár.

Að þessu sinni eru tveir sjálfboðaliðar frá Þýskalandi, systurnar Katarina og Juliane, sem er í annað sinn á Löngumýri.  

„Við njótum þess að vera hluti af hópnum. Það er svo gott andrúmsloft og allir skemmta sér svo vel. Hér fá allir að starfa og njóta sín á jafningjagrundvelli, þátttakendur, starfsmenn og sjálfboðaliðar,” segja þær systur.

Deildir Rauða krossins á Norðurlandi, höfuðborgarsvæði, Austurlandi og Suðurlandi standa að rekstri búðanna níunda árið í röð. Að þessu sinni eru 13 fatlaðir einstaklingar þátttakendur á öðru af þremur sjö daga tímabilum. Fyrsta tímabilið var í Stykkishólmi dagana 28. júní – 5. júlí, en það er í þriðja sinn sem sumarbúðir eru starfræktar þar. Síðasta tímabilið verður á Löngumýri 27. júlí – 3. ágúst.

Rauða kross leikurinn rétt að byrja. Allir tóku undir með Tedda og Helle.