Krakkarnir á Skagaströnd fá reiðhjólahjálma

16. okt. 2007

Þegar skólinn hóf starfsemi í haust gaf Skagastrandadeild Rauða krossins sjö ára börnum reiðhjólahjálma. Er þetta eitt elsta verkefni deildarinnar og hafa um það bil 200 börn þegið hjálma frá því að hún var stofnuð 31. mars árið 1993.

Pétur Eggertsson formaður deildarinnar hitti börnin í skólanum og með honum var Sigríður Stefánsdóttir hjúkrunarfræðingur. Hún spjallaði við börnin og útskýrði fyrir þeim hvernig hægt er að koma í veg fyrir slys með því að hafa hjálminn á höfðinu. Til útskýringar notaði hún harðsoðin egg og lítinn hjálm. Einnig var Bangsi, hundurinn hans Péturs með í för en hann er mikill vinur allra krakka á staðnum.