Prjónað til góðs

17. okt. 2007

Prjónakaffi hóf göngu sína hjá Skagafjarðardeild í gær. Komu þrír frumkvöðlar því á með Ágústu Sigurbjörgu í fararbroddi. Í tilefni kynningarviku komu þær saman og ætla að endurtaka það á fimmtudaginn frá kl. 14:00 - 16:00 til að kynna verkefnið fyrir þeim sem vilja prjóna til góðs.

„Við komum hér saman til að prjóna til góðs og spjalla saman um daginn og veginn, ætlum svo að vera með bakkelsi meðferðis í vetur þegar við hittumst,“ segir Ágústa sem sat í sófanum í Rauða krossinum á Aðalgötu 10b og prjónaði barnatrefil.

Föt sem framlag er eitt af mörgum verkefnum í innanlandsstarfi Rauða krossins. Sjálfboðaliðar á öllum aldri koma saman og prjóna og sauma fatnað fyrir verkefnið. Fötin eru svo sett í pakka sem fara til neyðaraðstoðar innanlands, þróunar- og neyðaraðstoðar erlendis eða til sölu í verslunum Rauða krossins þar sem hagnaður af sölunni rennur til neyðaraðstoðar erlendis. Rauði krossinn leggur til garn og efni í prjónaskapinn en samt eru allir garnafgangar vel þegnir.

„Þeir sem vilja koma og samgleðjast okkur og prjóna til góðs eru velkomnir í húsnæði Skagafjarðardeildar alla þriðjudaga frá 13 til 16,“ segja Kristín, Sigurbjörg og Ágústa sem skemmtu sér konunglega við prjónaskapinn.