Innflytjendur einangraðri úti á landi

18. okt. 2007

Innflytjendur sem búa úti á landi upplifa á stundum mikla félagslega einangrun og finnst erfitt að komast inn í íslenskt ættarsamfélag. Þetta kemur fram í sameiginlegri könnun tólf deilda Rauða krossins á Norðurlandi á stöðu innflytjenda á svæðinu.

Tungumálaerfiðleikar há innflytjendum enn frekar úti á landi þar sem helstu stofnanir sem þeir þurfa að hafa samskipti við eru á þéttbýlisstöðum og tjáskiptin fara oftast fram í síma. Þeir sem ekki hafa fullt vald á íslensku lenda því oft í örðugleikum. Einnig kemur í ljós að erfitt er fyrir fólk sem býr í strjálbýlli byggðum landsins að fá í íslenskukennslu þar sem miðað er við að minnst 10 einstaklingar séu í hverjum hóp.

Um rýnihóparannsókn er að ræða, byggða á viðtölum við innflytjendur sem lýsa upplifun sinni á aðlögun að samfélaginu og búsetu á Norðurlandi. Í skýrslunni koma einnig fram ábendingar rýnihópsins um með hvaða hætti væri hægt að aðstoða innflytjendur á svæðinu að aðlagast landi og þjóð.

Deildir Rauða krossins munu nýta sér niðurstöðu könnunarinnar til að móta ný verkefni í þágu innflytjenda jafnframt því að virkja þennan hóp í starfi Rauða krossins.

Hér fylgja nokkrar tilvitnanir í rýnihóp skýrslunnar:

Íslenskan lykillinn að þjóðfélaginu „mér leið eins og smábarni þegar ég kunni bara einfalda íslensku, um tíma langaði mig bara til að leggjast í gólfið og sparka og grenja."

Einangrun innflytjenda í dreifbýli, fjærri stærri byggðakjörnum „Ég á við helgarkrísu að stríða, ég veit hreinlega ekki hvað ég á að gera, á virkum dögum hef ég að minnsta kosti vinnuna!"

Allir fá menningarsjokk „hér var ekkert, alla leiðina frá Keflavík var fullt af engu, ekkert fólk, engin tré, ekkert, þannig er það stundum ennþá, það er eins og allt fólkið sé í felum, hér er ekkert nema tími." 

Auðvelt að eignast kunningja – erfitt að eignast vini „Ég var með heimþrá fyrstu fimm árin, nú fæ ég bara heimþrá öðru hvoru."

Sérkennilega mikill áhugi Íslendinga á ættfræði „fólk spyr samt ekkert um mína ætt og kemur fólki jafnvel á óvart að ég eigi foreldra, systkini eða vini i heimalandinu. Það er bara eins og við hefðum öll fæðst á Keflavíkurflugvelli."

Innflytjendur vilja styðja hvern annan „Ég myndi gjarnan vilja taka þátt í einhverju starfi til að hjálpa þeim sem eru að flytja hingað. Líka bara gera eitthvað skemmtilegt, hafa opið hús og svoleiðis. Ég vil láta í mér heyra og taka þátt í ýmsu, vera sjálfboðaliði. Við getum gert þetta saman, en ekki eitt og eitt."

Hægt er að lesa skýrsluna í heild sinni með því að smella hér.