Námskeið um geðheilbrigðismál á Húsavík

31. okt. 2007

24 þátttakendur sóttu námskeið fyrir aðstandendur og áhugafólk um geðheilbrigðismál, sem haldið var í Borgarhólsskóla á Húsavík. Þetta var 16. námskeiðið sem haldin hafa verið á öllu landinu en  það fjórða á Norðurlandi og er jafnframt síðasta námskeiðið af þessum toga sem haldið verður, í bili að minnsta kosti. Meginmarkmið námskeiðsins er að fræða um málefni geðfatlaðra og auðvelda fólki að mynda sjálfshjálparhópa.

Fjallað var um  geðsjúkdóma, meðferðarúrræði, meðvirkni, sjálfsvirðingu og sjálfsstyrkingu, mikilvægi andlegrar og líkamlegrar heilsuræktar og farið yfir sorgarviðbrögð, áföll og úrvinnslu. Einnig var hópavinna og umræður. Fyrirlesarar voru sr. Vigfús Bjarni Albertsson, sjúkrahúsprestur, Salbjörg Bjarnadóttir, geðhjúkrunarfræðingur hjá landlæknisembættinu, Margrét Ómarsdóttir foreldri, Sveinn Magnússon, framkvæmdastjóri Geðhjálpar og  Birna Hreiðarsdóttir notandi þjónustunnar. 

Í veikindaforföllum Guðbjargar Sveinsdóttur, skiptu fyrirlesarar með sér að flytja fyrirlestra hennar.  Helga G. Halldórsdóttir sviðsstjóri innanlandssviðs Rauða krossins var námsskeiðsstjóri, hún og Guðný H. Björnsdóttir, svæðisfulltrúi á Norðurlandi sáu um undirbúning og skipulagningu námskeiðsins.