Héldu kökulottó til styrktar Rauða krossinum

15. nóv. 2007

Þær vinkonur Birna og Sólveig gengu í hús í hverfinu sínu og söfnuðu dóti til að hafa á tombólu sem þær ætluðu að halda til styrktar Rauða krossinum. Tombóluna héldu þær síðan í verslunarmiðstöðinni Glerártorgi og gekk hún bara ágætlega. Þær stöllur vildu þó endilega gera eitthvað meira og af því að þær hafa báðar gaman af því að baka þá datt þeim í hug að halda kökulottó. Auðvitað sáu þær sjálfar um baksturinn og enn á ný var gengið í hús í hverfinu og nágrönunum boðið að taka þátt í lottóinu. Líklega eru stúlkurnar afbragðs bakarar og eiga líka góða nágranna því afraksturinn, sem þær síðan afhentu Rauða krossinum var rúmar 19 þúsund krónur. 
Stúlkurnar eiga svo sannarlega þakkir skildar fyrir framtakið, líkt og allur sá fjöldi barna og unglinga sem árlega styður við Rauða krossinn eða ýmis góð málefni.