Heimsókn frá Lundarskóla

15. nóv. 2007

Strákarnir í 6. K í Lundarskóla heimsóttu Akureyrardeild Rauða krossins og kynntu sér starf Rauða krossins. Þeir fengu einnig fræðslu um skyndihjálp og æfingu í að veita endurlífgun.

Strákarnir voru ófeimnir við að spyrja og sumir voru ágætlega að sér um sögu og tilgang Rauða krossins. Nokkrar umræður sköpuðust um það hvernig mætti forðast slys með því t.d. að nota hlífðarbúnað við íþrótta- og tómstundaiðkun. Að lokum var boðið upp á pítsu og endað með því að skella sér í nokkra leiki.

Það voru foreldrar nemendanna sem skipulögðu þessa dagskrá en þau skiptast einmitt á að skipuleggja ýmsa viðburði þar sem markmiðið er að tengja betur nemendahópinn  og aðstandendur þeirra.

Þess má geta að strákarnir vildu endilega styrkja Rauða krossinn með 3.200 krónum sem urðu afgangs þegar búið var að borga fyrir pítsurnar og eru þeim hér með færðar bestu þakkir fyrir stuðninginn og heimsóknina.