´" Á flótta " leikurinn á Akureyri

27. mar. 2008

Helgina 5. – 6. apríl n.k. er fyrirhugað að halda leikinn “ Á flótta “ á Akureyri og er skráning hafin. Leikurinn stendur  í einn sólahring og reynir á andlegt og líkamlegt þrek þátttakenda þannig að æskilegt er að þátttakendur séu ekki yngri en 15 ára eða tilbúninir fyrir þessa þolraun.
Á flótta er upprunalega danskur hlutverkaleikur sem gefur ungu fólki tækifæri til að upplifa hvernig það er að vera flóttamaður í einn sólarhring. Í upphafi leiksins fá þátttakendur nýtt nafn, þjóðerni, vegabréf og jafnvel nýja fjölskyldu. Þarnæst hefst örlagarík atburðarás þar sem þátttakendur neyðast til þess að flýja lengri eða styttri vegalengdir, kljást við skæruliða, hermenn, svartamarkaðsbraskara, fólkssmyglara og skriffinna, matarlausir, þreyttir og niðurlægðir.
Leiðbeinendurnir sjá um að leikurinn gangi snurðulaust fyrir sig. Þeir fara í hin ýmsu hlutverk, auk þess að vinna bak við tjöldin og fylgjast með þátttakendum. Þeir hafa allir gengið sjálfir í gegnum leikinn og sótt auk þess sérhæft námskeið um framkvæmd hans.
Að leik loknum ættu þátttakendur að hafa  öðlast nýja sýn á heim flóttamanna sem mun vonandi aðstoða þá við að skilja og hafa samúð með þeim og jafnvel hvetja einhverja til að bjóða sig fram til aðstoðar.

Upplýsingar og skráning í síma 461 2374 eða á [email protected]