Ársskýrsla 2007

23. apr. 2008

Á Norðurlandi eru 12 deildir; A- Húnavatnssýsludeild, Akureyrardeild, Dalvíkurdeild,
Húsavíkurdeild, Hvammstangadeild, Ólafsfjarðardeild, Siglufjarðardeild, Skagafjarðardeild, Skagastrandardeild, Þórshafnardeild, Strandasýsludeild og Öxarfjarðardeild. Svæðisráð er skipað þremur fulltrúum, einum frá hverju svæði þ.e. austur-, vestur- og miðsvæði. Elsa Björk Skúladóttir Húsavíkurdeild lét af formennsku á aðalfundi svæðisins sem haldinn var 29. september á Húsavík og við tók Sigurður Ólafsson, Akureyrardeild. Svæðisskrifstofa Rauða krossins á Norðurlandi er staðsett á Austurgörðum, Kelduhverfi. Svæðisfulltrúi er Guðný H. Björnsdóttir.

Rauða kross deildirnar á Norðurlandi sinna hefðbundnum Rauða kross verkefnum eins og neyðarvörnum, einstaklingsaðstoð og skyndihjálp. Auk þess eru ýmis verkefni í gangi hjá deildunum í samræmi við stefnu félagsins og þarfir á starfssvæði hverrar deildar.
Deildirnar hafa samvinnu um nokkur verkefni og eru undantekningalaust allar deildir með þegar um svæðasamstarf er að ræða.

Vinadeildasamstarf
Vinadeildasamstarf er við deild í Maputo í Mósambík. Stutt er við rekstur götubarnaheimilisins í Boa Esperanca ásamt stuðningi við sjálfboðaliða deildarinnar. Starfandi er vinnuhópur á svæðisvísu. Samþykkt var að afrakstur sölu batíkmynda og önnur framlög sem eyrnamerkt eru börnunum í Boa Esperanca, verði nýttur til menntunar barnanna og var ákveðið að deildir skuldbyndu sig til að leggja fram hálfa milljón á ári til þessa, næstu þrjú árin. Er sú fjárhæð óháð öðrum framlögum til vinadeildasamstarfsins.

Könnun
Gerð var könnun á stöðu innflytjenda á starfssvæði deildanna á sumarmánuðum. Til verksins voru ráðin þau Hilda Jana Gísladóttir og Jóhann Ásmundsson og voru niðurstöður könnunarinnar kynntar á aðalfundi deildanna á Húsavík. Mun hún nýtast deildum við val þeirra að verkefnum með innflytjendum. Skýrsluna er að finna á vef Rauða krossins undir „Fræðsla og útgáfa - skýrslur“

Sumarbúðir
Fastur liður er rekstur sumarbúðanna á Löngumýri í Skagafirði og í Stykkishólmi fyrir fatlaða einstaklinga 16 ára og eldri. Tvö tímabil voru á Löngumýri og eitt í Stykkishólmi. Þátttakendur voru á bilinu 30 til 40. Sumarbúðirnar voru reknar í samstarfi við deildir á höfuðborgarsvæðinu, Austurlandi og Suðurlandi.

Námskeið
Fjöldahjálparstóranámskeið var haldið á Húsavík og voru þátttakendur 23 frá þremur austustu deildunum. Framhaldsnámskeið fyrir fjöldahjálparstjóra í sálrænum stuðningi var haldið á Akureyri og sóttu það 17 manns frá 8 deildum. Námskeið fyrir aðstandendur og áhugafólk um geðheilbrigðismál var haldið á Húsavík á haustmánuðum og sóttu það um 30 manns en það var jafnframt síðasta námskeiðið af þessum toga sem haldið verður, í bili að minnsta kosti. Námskeið fyrir verðandi heimsóknavini voru haldin hjá fimm deildum, tvær voru að halda námskeið í fyrsta skipti, hinar í annað eða þriðja sinn.

Lautin og Setrið
Athvarf fyrir geðfatlaða á Akureyrir flutti í nýtt og stærra húsnæði og auðveldar það starfið til muna. Gestum og velunnurum var boðið til veislu í tilefni að þessum tímamótum þann 14. október. Athvarfið Setrið á Húsavík varð eins árs þann 10. október. Að því tilefni vann Þekkingarmiðstöð Þingeyinga úttekt á verkefninu og er skemmst frá því að segja að almenn ánægja er með starfsemina, jafnt hjá notendum, fagaðilum og aðstandendum.

Fjölsmiðja
Í byrjun júlí var skrifað undir skipulagsskrá fyrir stofnun Fjölsmiðju á Akureyrir. Að verkefninu standa auk Rauða krossins, Akureyrarbær, Vinnumálstofnun og Stéttarfélögin í Eyjafirði. Fjölsmiðjan er atvinnutengt úrræði fyrir ungt fólk, sem hefur flosnað upp úr námi eða vinnu og er ungmennunum hjálpað við að finna sér stað í lífinu, til að byggja sig upp fyrir framtíðina. Einstaklingar eru á aldrinum 16- 24 ára. Miklar vonir eru bundnar við starfsemi Fjölsmiðjunnar.

Skólafræðsla
Akureyrardeild var í samstarfi við Menntaskólann á Akureyri, en partur af lífsleikninámi nemenda er að vinna sem sjálfboðaliðar í Laut, athvarfi fyrir geðfatlaða, og við fataflokkun. Í námskrá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra er nú að finna valáfangann FLÓ 101 sem felur í sér að nemendur taki þátt í leiknum „ Á flótta” og skrifi ritgerð um upplifun sína. Á vegum Húsavíkurdeildar var vinnuskólanum á Húsavík boðið upp á fræðslu um mannúð og hlutleysi auk fræðslu um Rauða krossinn.

Skyndihjálparhópur
Skyndihjálparhópurinn kom saman sex sinnum á árinu, fékk fræðslu og verklega þjálfun. Hópurinn hittist í húsnæði Akureyrardeildar en einnig hafa verklegar æfingar farið fram á Slökkvistöð Akureyrar og einnig var hópurinn þjálfaður í sundlauginni á Hrafnagil.