Ungmenni kynna HIV leik

15. maí 2008

Þriðjudaginn 15. apríl hélt ungmennahreyfing Akureyrardeildar RKÍ í mikla ævintýraför í Menntaskólann á Akureyri. Tilefnið var að bjóða menntskælingum í HIV leik á opnum dögum í skólanum. Mikill áhugi var á leiknum og fylltust öll 20 plássin fljótlega eftir að byrjað var að skrá.  Leikurinn gengur í stuttu máli þannig fyrir sig að þátttakendur fá nýtt nafn, persónuleika og áhugamál og svo lítið glas með óþekktum vökva. Síðan fer fólk að spjalla saman og ef efni standa til geta þau stundað kynlíf saman. Það er síðan undir persónuleikanum komið hvort það verður öruggt eða ekki, það er að segja hvort vökvunum verður blandað saman eður ei. Leikurinn endar síðan á því að allir fara í HIV próf og kemur þá í ljós hverjir eru sýktir og hverjir ekki.
Í upphafi leiks var aðeins einn þátttakandi með HIV veiruna í glasinu sínu, en í lok leiksins reyndust einungis tveir ósmitaðir. Boðskapurinn í leiknum var að sjálfsögðu mjög skýr og til að leggja enn meiri áherslu á hann var tekin létt umræða í lokin, þar sem leikstjórnendur köstuðu fram ýmsum sláandi staðreyndum um HIV og fengu hópinn til að hugsa um og ræða málið.
 Leikurinn gekk mjög vel og allir höfðu gaman að. Þátttakendur voru svo flestir sammála um að gjörningurinn hafi fengið þau til að hugsa þetta mál í svolítið nýju ljósi, og má því segja að forvarnargildi leiksins hafi svo sannarlega skilað sér hjá ungmennahreyfingu Akureyrardeildarinnar.