Landsliðið í skyndihjálp æfir sig

22. maí 2008

Í síðustu viku kom saman sá hluti skyndihjálparhópsins á Norðurlandi sem keppa mun fyrir Íslands hönd í Evrópukeppni Rauða krossins í skyndihjálp (FACE), sem haldin verður í Liverpool í júní. Keppnin er sameiginlegur vettvangur áhugafólks um skyndihjálp til að koma saman og taka jafnframt þátt í skemmtilegri keppni. Settir eru upp margvíslegir póstar með leiknum sjúklingum og það lið sem veitir sjúklingunum bestu meðhöndlunina, samkvæmt evrópskum skyndihjálparstöðlum, stendur uppi sem sigurvegari.

Í ár tekur Rauði kross Íslands þátt í sjönda sinn. Enn hefur ekki tekist að ná gullinu heim en mikil pressa er á liðið að breyta því og koma Íslandi á toppinn.
 
Á fundinum í síðustu viku fræddi Jón Brynjar Birgisson neyðarvarnarfulltrúi Rauða krossins þátttakendur um keppnina og  sýndi myndir frá fyrri keppnum. Guðný Bergvinsdóttir lagði upprifjunarpróf fyrir hópinn og að því búnu var haldið niður á Slökkvistöð Akureyrar þar sem að Jón Knutsen stýrði verklegum æfingum.