„Amma mín er handleggsbrotin..."

26. maí 2008

Nemendur 3ja bekkjar í Glerárskóla heimsóttu Akureyrardeild Rauða krossins á dögunum en hópar leita í auknu mæli eftir því að fá kynningu á Rauða krossinum og starfsemi hans. Kynningarnar eru auðvitað mismunandi eftir aldri og fjölda viðkomandi hverju sinni en líklega er óhætt að segja að þær séu skemmtilegri eftir því sem hóparnir eru yngri.

Þannig er til dæmis næsta víst að þegar yngstu börnunum er sagt frá því að stofnandi Rauða kross hreyfingarinnar Henry Dunant sé reyndar dáinn, þá þekkja alltaf nokkrir úr salnum einhvern sem dó. Og þegar sagt er frá sjúkrabílunum eða hvernig maður lærir skyndihjálp eru einhverjir sem eiga skyldmenni eða kunningja sem hafa lent í stórkostlegum hremmingum. Börnin eru sem sagt ævinlega einlæg og ófeimin við að spjalla og því sérstaklega gaman að fá þau í heimsókn.