Allir taka þátt á sumarbúðum Rauða krossins

30. júl. 2008

Sumarbúðum Rauða krossins á Löngumýri í Skagafirði fyrir fatlaða lauk um helgina en þær voru nú haldnar tíunda sumarið í röð. Einnig hafa verið reknar sumarbúðir í Stykkishólmi síðustu fjögur sumur. Karl Lúðvíksson hefur verið sumarbúðastjóri á Löngumýri frá upphafi en Gunnar Svanlaugsson er við stjórnvölinn í Stykkishólmi. Alls sóttu 40 þátttakendur sumarbúðirnar í sumar.

Dagskráin er fjölbreytt. Auk skoðunarferða er farið á hestbak, í flúðasiglingar og sjóstangaveiði, golf, júdó, leiki og kennd er skyndihjálp, auk fræðslu um Rauða krossinn. Flesta daga er farið í sund og kvöldvaka með þátttöku sumarbúðagesta hvert kvöld.

Halldóra Jónsdóttir var á Löngumýri í fyrsta sinn nú í júlí. Hún hefur fylgst með vinkonu sinni Ástrósu Yngvadóttur sem hefur sótt búiðirnar í nokkur ár. „Þetta var eina tækifærið mitt til að taka þátt í sumarbúðum í sumar. Mér finnst gaman að kynnast þátttakendum sem koma víða að og eru svo skemmtilegir hver á sinn hátt. Þetta er í fyrsta sinn sem ég fer í flúðasiglingar og sjóstangaveiði,” segir Halldóra og er staðráðin í að sækja aftur um næsta sumar.

Í síðustu viku heimsóttu Anna Stefánsdóttir formaður Rauða krossins og Kristján Sturluson framkvæmdastjóri sumarbúðirnar á Löngumýri. „Það er gaman að sjá hversu ánægðir allir þátttakendur eru og að allir taka fullan þátt, hver eftir sinni getu,” segir Anna sem fór í flúðasiglinguna með hópnum.