Námskeið í sálrænum stuðningi á Blönduósi

12. nóv. 2008

Námskeið í sálrænum stuðningi var haldið um helgina á vegum Rauða kross deildar Austur Húnavatnssýslu. Mikil aðsókn var að námskeiðinu eða 26 þátttakendur. Meðal annarra tóku þátt sjálfboðaliðar deildarinnar; stjórnarmenn, heimsóknavinir og fjöldahjálparstjórar auk lækna, björgunarsveitar-, slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Sem sagt frábær hópur og allir mjög ánægðir með námskeiðið.

Leiðbeinendur voru þau Jóhann Thoroddsen sálfræðingur og verkefnisstjóri Rauða krossins og Margrét Blöndal geðhjúkrunarfræðingur.

Deildir Rauða krossins bjóða þeim sem hafa áhyggjur í kjölfar efnahagsþrenginga að sækja ókeypis námskeið í sálrænum stuðningi þar sem m.a. er fjallað um gildi sálræns stuðnings í aðstæðum sem geta valdið áföllum. Á námskeiðunum læra þátttakendur að gera sér betur grein fyrir eðlilegum viðbrögðum fólks sem lendir í sársaukafullum aðstæðum og hvernig þeir geti veitt stuðning og umhyggju.

Sjá nánar dagskrá námskeiðanna og annarra atburða Rauða krossins með því að smella hér.