Föt sem framlag - mikið saumað á síðasta ári

13. jan. 2009

Sjálfboðaliðar Akureyrardeildar útbjuggu á síðasta ári um þrettán hundruð ungbarnapakka sem sendir voru erlendis og að auki nokkuð af fatnaði sem seldur var innanlands.

Hópurinn sem unnið hefur að þessu verkefni samanstendur af einstaklingum sem hittast reglulega í húsnæði deildarinnar en einnig er nokkuð um að einstaklingar vinni að verkefninu heimavið.

Verkefnið föt sem framlag er sauma- og hannyrðaverkefni sem byggist á því annars vegar að útbúnir eru ungbarnapakkar sem sendir eru til þróunar- og neyðaraðstoðar erlendis og hins vegar að föt sem saumuð eru eða prjónuð af sjálfboðaliðum eru seld í Rauða kross búðum eða mörkuðum deilda víða um landið.

Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér verkefnið frekar geta leitað upplýsinga á skrifstofu Akureyrardeildar í síma 461 2374 eða á netfangið akureyri@redcross.is.