Samstarf við deildir í Mósambík

29. jan. 2009

Rauða kross deildir á Norðurlandi eru í vinadeildasamstarfi við deildir í Mósambík. Funduðu þær í vikunni og buðu til sín Baldri Steini Helgasyni frá landsskrifstofunni sem fór yfir verkefnastöðuna.

Fram kom að verið er að leggja lokahönd á viðgerðir á barnaheimilinu Boa Esperanca en á því hafa verið gerðar miklar úrbætur. Baldur sýndi myndir af húsinu þar sem sást að bætt hefur verið við einni hæð og er það hið reisulegasta, málað í sínum græna lit innan sem utan. Einnig hafa frárennslismál verið lagfærð en þau voru í miklum ólestri. Fyrirhugað er að flutt verði í húsið í næsta mánuði en rekstur heimilisins var á öðrum stað meðan á framkvæmdum stóð.

Annað verkefni sem deildirnar á Norðurlandi koma að felst í aðstoð við sjálfboðaliða deildarinnar úti. Þar hefur verið lögð áhersla á fræðslu um Rauða kross hreyfinguna, þjálfun í skyndihjálp og stuðningi við skyndihjálparhópa ungmenna í Mapútóborg, námskeið í náttúruvernd þar sem frætt er um umhirðu og sáningu græðlinga og trjágróðurs svo fátt eitt sé nefnt.

Á síðasta ári var í fyrsta sinn veitt fé úr sjóði sem myndast hefur vegna sölu á batíkmyndum og fjáröflun henni tengdri. Sjóðurinn rennur til starfsmenntunar barna á Boa Esperanca barnaheimilinu. Um er að ræða nám í ýmsum iðngreinum sem veitir þeim möguleika á að sjá sér farborða í framtíðinni og einnig fái þau grunnbúnað til að hefja starfssemi.