Hláturjóga - Ekki aprílgabb

2. apr. 2009

Kristján Helgason hláturleiðbeinandi kom á fund heimsóknarvina með fræðslu um hlátur og lagði fyrir þá nokkur verkefni sem heimsóknarvinir leystu með bros á vör ef svo má segja.  Kannski mættu einhverjir bara til að ganga úr skugga um hvort þarna væri enn eitt aprílgabbið á ferð. 
Þátttakendur fengu að sannreyna það að hlátur getur losað um spennu, aukið blóðflæði og frískað þar með bæði upp á líkama og sál.  Og ef gamla máltækið um að hlátur lengi lífið er satt,  þá hafa þátttakendur ávaxtað vel þann klukkutíma sem þeir vörðu í hláturæfingarnar.  Eitt af því sem fram kom hjá Kristjáni er að fólk er yfirleitt að nota mjög grunna öndun og þar af leiðandi aðeins að endurnýja það loft sem liggur efst í lungunum og öndunarveginum.   Auðvitað var þessi fróðleiksmoli notaður af þátttakendum sem skýring á því af hverju sumir væru   svo andfúlir.  Segja má að þessar æfingar hafi gengið vonum framar og þó svo að einhverjum hafi kannski fundst erfitt að stíga yfir sinn eigin óþægindaþröskuld þá voru allir sælir og kátir í lokin.