Flugslysaæfing á Þórshöfn

21. apr. 2009

Fyrir tilstuðlan Flugstoða var haldin flugslysaæfing á Þórshafnarflugvelli á laugardaginn.

Sjálfboðaliðar Þórshafnardeildar Rauða krossins tóku þátt i æfingunni ásamt öðrum viðbragðsaðilum.

Það kostar mikla vinnu og undirbúning til að halda æfingu sem þessa. Fræðslu - og undirbúningsfundir voru haldnir, bæði fyrir sjálfboðaliða deildarinnar og einnig var sameiginleg fræðsla fyrir alla viðbragðsaðila. Meðal þeirrar fræðslu sem sjálfboðaliðar Rauða krossins þáðu var almenn fræðsla um neyðarvarnir, sálrænn stuðningur, bráðaflokkun og áverkamat, móttaka þyrlu á slysstað, böruburður og vinnulag í flugslysum.

Starf sjálfboðaliðanna fór eingöngu fram úti á flugvelli, en ekki var æfð opnun á söfnunarsvæði aðstandenda að þessu sinni. Þar aðstoðuðu þeir með ýmsum hætti, bæði á slysstað og inni á söfnunarsvæði slasaðra þar sem þeir sinntu slösuðum og aðstoðuðu heilbrigðisstarfsfólk eftir þörfum.

Í samfélagi af þessari stærðargráðu og fjöldi heilbrigðisstarfsmanna er í samræmi við hana er mikilvægi góðrar kunnáttu sjálfboðaliða í skyndihjálp ótvírætt.

Að æfingu lokinni fór aðhlynningarstjóri æfingarinnar, Laufey Þórarinsdóttir yfir stöðuna með sjálfboðaliðum. Það var mál manna að æfingin hefði tekist vel, margt mætti af henni læra og eins kom það vel fram hversu nauðsynlegt það er að hafa nægan mannskap þó ekki sé nema bara til að bera slasaða til og frá flutningstækjum.